Vill halda áfram að þróa leik Stólanna :: Liðið mitt Konráð Freyr Sigurðsson

Konni fagnar marki gegn Sindra í sumar. MYND: ÓAB
Konni fagnar marki gegn Sindra í sumar. MYND: ÓAB

Konráð Freyr Sigurðsson átti mjög gott tímabil með karlaliði Tindastóls í sumar og fyrir vikið valinn í lið ársins í 3. deildinni sem hlaðvarpsþátturinn Ástríðan stóð að. Hann spilaði 19 leiki, gerði í þeim fjögur mörk og lagði upp tólf fyrir aðra. Konni, sem lengi hefur verið viðloðandi fótboltann, er uppalin á Akranesi en flutti til Sauðárkróks með foreldrum sínum eftir 10 bekkinn. Hann  starfar núna í Húsi frítímans, heldur með Manchester United, þrátt fyrir að vera einnig aðdáandi Gylfa Sig. Konni svara hér spurningum í Liðið mitt.

Hvert er uppáhalds liðið þitt í enska boltanum og af hverju?  -Ég hef alltaf haldið með risunum Manchester United. Ástæðan er af því að bræður mínir neyddu mig til þess að halda með þeim á yngri árum, annars er ég mikill Gylfa Sig maður.

Hvernig spáir þú gengi liðsins á tímabilinu? -Ef við tölum um United þá áttu þeir fínt tímabil í fyrra, lentu þá í þriðja sæti. Þeir eru núna staðsettir í 15. sæti og útlitið á liðinu er ekki gott í úrvalsdeildinni, hinsvegar hljóta þeir nú að fara rífa sig í gang og fara tengja einhverja sigra saman. Þeir enda í 5. sæti á þessu tímabili held ég.

Ertu sáttur við stöðu liðsins í dag? -Nei, eins og ég sagði hér að ofan, þeir eru ekki að gera góða hluti eins og er í úrvalsdeildinni, en þeir eru hinsvegar í toppi riðilsins í Meistaradeildinni þrátt fyrir tap á móti Istanbul. Eigum við ekki bara að vonast eftir einhverju ævintýri þar.

Hefur þú einhvern tímann lent í deilum vegna aðdáunar þinnar á umræddu liði?  -Já, lendir maður ekki alltaf einhvern tíman í því, hins vegar er ég nú alveg jarðtengdur í þeim efnum. Ég nenni nú ekki að fara í rifrildi við einhvern um eitthvað lið úti í heimi.

Hver er uppáhaldsleikmaðurinn fyrr og síðar?  -Verð að fá að nefna tvo leikmenn; Zlatan Ibrahimović og Lionel Messi, vissulega eru þeir ólíkir en báðir eiga það sameiginlegt að vera ótrúlega góðir fótboltamenn

Hefur þú farið á leik með liðinu þínu?  -Já, ég fór á leik 2012 á Old Trafford, Man Utd – Tottenham. Gaman að segja frá því að Gylfi kom einmitt inn á í þeim leik og íslenski hópurinn í stúkunni trylltist, en allt voru það United aðdáendur.

Áttu einhvern hlut sem tengist liðinu? -Á nokkrar treyjur, og einn United fána sem við keyptum úti.

Hvernig gengur að ala aðra fjölskyldumeðlimi upp í stuðningi við liðið? -Gengur ágætlega svosem.

Hefur þú einhvern tímann skipt um uppáhalds félag? -Nei, heldur betur ekki.

Uppáhalds málsháttur? -Því miður á ég nú engan uppáhalds málshátt.

Einhver góð saga úr boltanum? -Á eina skemmtilega sem gerðist þegar ég var ný fluttur á Krókinn og áttum leik á móti mínum gömlu félögum í ÍA þegar ég var í 3. flokki. Þar skoraði ég sigurmark í lokin með skalla eftir hornspyrnu en æskufélagi minn var að dekka mig í horninu og minni ég hann reglulega á þetta moment. Þess má geta að hann Pétur Rúnar Birgisson var að spila með mér upp á topp, eitrað teymi.

Einhver góður hrekkur sem þú hefur framkvæmt eða orðið fyrir? – Ég verð nú að viðurkenna að ég er ekkert mikið að hrekkja fólk.

Spurning frá Eysteini Ívari: -Hvenær ætlið þið að feta í fótspor stelpnanna í Tindastól og spila í efstu deild? - Rosalega góð og erfið spurning Eysteinn, takk fyrir þessa. Það sem þær eru að uppskera núna er margra ára vinna, á uppbyggingu og góðu utanum haldi.,Við erum að sjá stóran kjarna af uppöldum stelpum sem fóru margar hverjar upp yngri flokka saman, það er búið að vera stórt skarð þarna á milli karla megin. Hvort það sé utan um hald hjá klúbbnum eða að árgangarnir séu einfaldlega ekki með marga sem vilja æfa fótbolta. Eina sem ég bið um núna karla megin er að við höldum áfram að þróa leik okkar í þá átt sem við erum að reyna að leggja grunn á og vona að það skili síðan góðum árangri. Einfaldlega er algjör snilld að stelpurnar séu komnar í Pepsi Max deild kvenna, og eigum við að vera mjög stolt af því.

Hvern myndir þú vilja sjá svara þessum spurningum? -Rabbý Guðnadóttur.

Hvaða spurningu viltu lauma að viðkomandi? -Ætlar þú að taka fram takkaskóna núna? Vera með í Pepsi Max ævintýrinu?

Áður birst í 43. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir