Vill sameina Háskólann á Hólum við Landbúnaðarháskólann og Bifröst
Verið er að vinna að úttekt á háskólakerfinu í menntamálaráðuneytinu og hefur menntamálaráðherra sett fram þá hugmynd að sameina Landbúnaðarháskólann, Háskólannn á Hólum og Bifröst í nýja sjálfseignarstofnun. Hugmyndin kom fram í bréfi frá rektor Landbúnaðarháskólans til starfsmanna, rektor Háskólans á Hólum hafði ekki heyrt af hugmyndum ráðherra. Rúv.is greinir frá þessu.
Í upphafi kjörtímabilsins sagði Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra að háskólar á Íslandi séu of margir en þeir eru sjö talsins. Verið er að vinna úttekt á háskólakerfinu. Bæði Háskólinn á Hólum og Landbúnaðarháskólinn hafa átt við verulegan fjárhagsvanda að stríða undanfarin ár og hefur ýmsum hugmyndum um hvernig megi leysa þann vanda verið velt upp.
Í frétt Rúv.is segir að rektor Landbúnaðarháskólans sendi öllum starfsmönnum tölvupóst sl. þriðjudag. Þar kemur fram að menntamálaráðherra hafi sett fram þá hugmynd að búin verði til ný sjálfseignarstofnun þar sem sameinaðar verði Landbúnaðarháskólinn, Háskólinn á Hólum og Háskólinn á Bifröst. Í tölvupóstinum segir ennfremur að þessi nýi sameinaði skóli eigi að vera matvæla - ferðaþjónustu- og landbúnaðarháskóli sem geti aflað sér meiri tekna en nú er mögulegt þar sem hægt verði að innheimta skólagjöld.
Vanfjármögnun vandi íslenska háskólakerfisins
Björn Þorsteinsson, rektor Landbúnaðarháskólans, segir að sér hugnist ekki hugmyndir menntamálaráðherra um sameiningu í samtali við Rúv.is og að við fyrstu sýn að þá blasi ekki við að það náist sterkur samruni út úr þremur mjög fjárhagslega veikum stofnunum.
Björn segir skynsamlegra væri að skoða samruna minni háskóla við þá stærri, eins og háskóla Íslands. Hann segir að vandi íslenska háskólakerfisins sé vanfjármögnun. Aðspurður segir hann allt of mikið að hafa sjö háskóla í landinu.
Erla Björg Örnólfsdóttir, rektor Háskólans á Hólum sagði í samtali við fréttastofu Rúv að ráðuneytið hafi ekki haft samband við forsvarsmenn skólans vegna þessa. Hún sagðist ekki vilja tjá sig um hugmyndir ráðherra fyrr en formlegt erindi hefði borist.
Heimildir: Rúv.is.