Vinna við endurskoðun byggðaáætlunar hafin

Hafin er vinna við endurskoðun byggðaáætlunar 2018-2024 en í gær, þann 11. júní, voru liðin tvö ár frá samþykki hennar. Af því tilefni boðaði samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til samráðsfundar í Hafnarborg í Hafnarfirði og var tilgangur fundarins að hefja formlegt ferli endurskoðunarinnar.

Í erindi ráðherra kemur m.a. fram að núgildandi byggðaáætlun er fyrsta og eina byggðaáætlunin sem nær til sjö ára. Fyrri áætlanir voru gerðar til fjögurra ára og sú næsta mun ná til 15 ára - en samkvæmt lögum frá 2018 var gerð sú breyting að ráðherra skuli, að minnsta kosti þriggja ára fresti, leggja fyrir Alþingi endurskoðaða byggðaáætlun sem nær til 15 ára. Jafnframt skal mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fimm ára. 

Taka á saman grænbók um framkvæmd áætlunarinnar til þessa þar sem ætlunin er að fá fram hugmyndir um það hvert skal stefna með nýrri byggðaáætlun og fá fram skoðanir á því hvað vel hefur gengið og hvað má betur fara. 

Í máli ráðherra kom fram að í byggðaáætlun eru tilgreindar 54 aðgerðir og er vinna hafin við þær allar. Nokkrum aðgerðum er þegar lokið og aðrar aðgerðir eru komnar mislangt á veg. Af þessum 54 aðgerðum eru 30 þeirra fjármagnaðar af byggðalið, sumar að öllu leyti en aðrar að hluta til. Af þessum 30 aðgerðum eru 20 sem eru á ábyrgð annarra ráðuneyta en samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Byggðastofnun mun gegna lykilhlutverki við vinnuna framundan, líkt og við gerð síðustu byggðaáætlunar.

Í framhaldi af fundinum var opnað fyrir almennt samráð um endurskoðun áætlunarinnar. Hér er hægt að taka þátt í samráðinu. 

Gildandi byggðaáætlun má finna hér og hér er skýrsla ráðherra um framvindu hennar. Yfirllit yfir stöðu verkefna er að finna hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir