Völvuspá 2019 – Frá Spákonuhofinu á Skagaströnd

Við fengum þá ósk að spá fyrir um hvort Tindastóll myndi ná að landa bikar í körfubolta karla. Við urðum við þeirri beiðni og satt að segja sáum strax eftir því að hafa eitthvað verið að rýna í þessi mál, enda höfum við ekkert vit á körfubolta nema það að við vitum að Stólarnir hafa verið að standa sig frábærlega. Niðurstaðan var nefnilega ekki í samræmi við væntingar þess aðila sem óskaði eftir svari. Mynd: Hjalti Árna.
Við fengum þá ósk að spá fyrir um hvort Tindastóll myndi ná að landa bikar í körfubolta karla. Við urðum við þeirri beiðni og satt að segja sáum strax eftir því að hafa eitthvað verið að rýna í þessi mál, enda höfum við ekkert vit á körfubolta nema það að við vitum að Stólarnir hafa verið að standa sig frábærlega. Niðurstaðan var nefnilega ekki í samræmi við væntingar þess aðila sem óskaði eftir svari. Mynd: Hjalti Árna.

Enn á ný lögðust spákonurnar í Spákonuhofinu undir feld og kíktu í spil, köstuðu völum, rýndu í rúnir og kaffibolla. Spáin fyrir árið 2018 gekk að nokkru leiti eftir, og eru varnarorð þau er höfð voru um að menn ættu að gæta orða sinna svo sannarlega í hámæli þessa dagana. Ríkisstjórnin hélt velli, eins og spáð var en mikill gustur var um menn og málefni.

Fram kom í spánni að aðrar þjóðir sæktust í auknu mæli eftir gæðum landsins okkar og það kom á daginn að sala á bújörðum og  umræður um orku landsins voru áberandi á árinu. „Margt fleira gekk eftir, annað greinilega eitthvað mistúlkað hjá okkur. En veðurspáin er greinilega alveg í samræmi við það sem við spáðum þ.e.s. fyrir okkar svæði hér Strandir og Norðurland vestra. Þess verður ekki langt að bíða að við tökum yfir veðurstofuna,“ segja spákonurnar sem hér leggja spilin á borðið í orðsins fyrstu merkingu.

Landsmálin
Nú standa menn á Alþingi frammi fyrir erfiðleikum sem virðast óyfirstíganlegir en brátt rætist úr, mál leysast betur en búist var við og allir hafa lært sína lexíu. Sólin er rísandi en þó ber skugga á því veikindi eða aðrir erfiðleikar koma upp innan þingliðs. Fjármálaklúður virðist koma upp á fyrri hluta árs og kemur fólki í opna skjöldu. Aðstæður breytast og fólk ætti að halda vel um sitt og ekki taka óþarfa áhættu. Atvinna minnkar og skærur verða á vinnumarkaði. Nú ríður á að skynsemin ráði og að því kemur. Þær kröfur sem fram koma ná ekki brautargengi og því er hætt við að einhver telji sig bera skarðan hlut frá borði. Ríkistjórnin horfir fram á strembna tíð. Forsætisráðherra á í erfiðleikum með eigin liðsmenn en stjórnin heldur þó áfram að tóra.

Þeir stjórnmálamenn sem hafa nú farið í leyfi, munu ekki mæta í náinni framtíð og fleira miður skemmtilegt er tengist hinu háa Alþingi mun koma á daginn, minnist orðanna: Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum. En forðist málsháttinn: Svo skal böl bæta, að benda á annað verra.

Nú tókum við upp norrænu goðafræðispilin okkar og drógum spil fyrir ráðherra, hvern fyrir sig til að sjá hvernig þeim farnast á árinu.

Katrín, forsætisráðherra  fékk  Rindur,  Gjallarbrú og Sigyn. 
Auðvitað stendur forsætisráðherra mjög oft frammi fyrir stórri ákvörðun í sínum störfum en það er eitthvað mikið og mjög stórt sem hún Kata stendur frammi fyrir. En traust er hún sínu samstarfsfólki og svíkur ekki. Þarna þarf hún að ákveða hvaða götu hún ætlar að ganga og það verður ekki endilega auðveldasta leiðin sem hún velur. 

Hjá Bjarna Ben, fjármálaráðherra, komu upp Irminn, Þór og Heldreginn.

Það mun reyna mikið á Bjarna og upp koma óvænt atvik honum tengd, en hann þarf að sýna stillingu þó að að honum sé vegið. Þetta vekur upp hjá honum mikla reiði og það er eins og hann sé hafður fyrir rangri sök. Erfitt ár framundan hjá honum.

Sigurður Ingi, samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, þar birtust Ganglatur, Hnoss og Loki.  Hann kemur áfram málum sem tengjast samgöngumálum er hafa tekið allt of langan tíma, það veldur miklum deilum og snýst upp í andhverfu sína. Lítur vel út í byrjun, en verður ekki farsælt.

Ásmundur Einar, félags og jafnréttismálaráðherra, aldeilis góð spil sem hann hlaut, Gefjun, Darri og Frygg.  Hann mun sýna kjark og þor í máli sem orkar tvímælis en verður til mikilla framfara þegar frá líður.

Fyrir  Guðlaug Þór, utanríkisráðherra komu upp spilin. Erna, Mímir, Naglfari. Guðlaugur vill vera allra vinur. Hann er klókur í samskiptum en ætti að fara varlega í þessum utanlandsferðum sínum, þær geta verið varhugaverðar.

Sigríður Andersen, dómsmálaráðherra, dröslast með mál fortíðar í farteskinu. Flókin mál og erfið úrlausnar. Vonandi leysist úr þeim, enda er konan skynsöm og veit að það er henni nauðsynlegt. Hún má passa sig að ætla sér ekki um of. Hennar spil voru Urður, Forseti og Hænir.

Hjá Lilju Alfreðs, mennta og menningarmálaráðherra, kom upp Ullur, Ganglöt, Móði. Hún er metnaðarfull og leggur sig fram. Stefnir hátt, en sumum finst hún fara sér óþarflega hægt, en ekkert er vanhugsað og hún mun standa fyrir ýmsum nýjungum í menntamálum sem verður til góðs.

Næst var það heilbrigðisráðherrann okkar hún Svandís Svavars, Ja, það er allavega óhætt fyrir hana að fara að hlusta á hinn almenna borgara og leggja af einstefnuna. Hún vill koma á nýjungum en stefnir út í óvissuna, það er betra að fara með löndum.  Það segja okkur spilin hennar þau Lóður, Móði, Njörður.

Kristján Þór, sjávar- og landbúnaðarráðherra, fékk Gná, Rán og Móða. Sýnilegt að hvað sem öllu líður þá munu breytingar og nýmæli í lögum um veiðigjöld bæta hag þjóðarbúsins í heild. Árið bara nokkuð farsælt hjá Kristjáni.

Þórdís Reykfjörð, ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarmálaráðherra. Fornjótur, Gandalfur og Heimdallur vour hennar spil. Það kemur  upp eitthvað óvænt og óþægilegt mál er tengist henni. Hún þaf að leita leiðsagnar og fær trausta hjálp. Þetta mun ekki rýra traust hennar sem ráðherra þó einhverjir hrópi á afsögn.

Að lokum er það Guðmundur Ingi, umhverfisráðherra, Þar birtust okkur spilin Drellingur, Gersemi og Erna. Guðmundur er ljúfmenni og á gott með samskipti við fólk. Stundum þyrfti hann að skoða betur innihald en umbúðir, glanshúðin slitnar oft fljótt og ýmislegt lakara getur komið í ljós. Láttu ekki blekkja þig Guðmundur.

Lögðum við nú spil fyrir stjórnarandstöðuna.  Frygg, Gói, Sýn, Eir og Máni

Af þessum spilum má ráða að þar þurfa menn að girða sig í brók og fara að vinna betur saman, það er fátt sem sameinar menn þar nema að vera á móti sitjandi ríkissjórn. Sjónarmiðin eru alltof mörg og stefnan í sitthvora áttina svo þeim reynist erfitt að veita stjórninni nauðsynlegt aðhald.  

Spá fyrir landshlutana
Lagðar voru nú rúnir, spil og rýnt í kristalskúlu fyrir hvern landshluta. Það er mikill kraftur yfir suðurlandi bæði í fólki, fyrirtækjum og náttúrunni, ætlum samt ekki að fara spá einhverjum eldgosum. Sú mikla uppbygging sem þar á sér stað heldur áfram og ekki síst er mikill uppgangur í því sem er heilsutengt, hvort sem það er nú ný bygging sjúkrahúss eða bara almenn heilsuefling þarna á Stór - Reykjarvíkursvæðinu, skal ósagt látið.

 Vesturlandið er ekki alveg á sömu bylgjulengd, þar er eitthvað sem fer ekki eins og áætlað var, einhver framkvæmd sem miklar væntingar voru bundnar við mun verða frestað eða hætt við. Það er lítið annað að gera en að taka því eins og hverju öðru hundsbiti en vonbrigðin eru mikil.

Á Norður og Austurlandi  er eins og menn hafi ekki verið að hugsa til  framtíðar, hafi ekki sett sér nógu löng markmið, það dugar ekki að hugsa bara um morgundaginn. Ekki vantar tækifærin, en þau þarf að nota. Þarna fara menn að nota skynsemina og samningar verða gerðir og meiri samstaða verður meðal þessara landshluta heldur en oft áður.  Ný fyrirtæki og heldur fjölgar fólki.

Að lokum er það veðurspáin fyrir  okkar svæði
Upp úr áramótum kemur leiðindakafli en hann stendur stutt og síðari hluti janúar og fyrsta vika Þorra verða flestum hagfelld. Kyndilmessuhvellur á sínum stað, sem veit á gott enda blíða það sem eftir lifir af febrúar. Útmánuðir verða nokkuð umhleypingasamir þó engin stórvirði. Sumarkoman færir okkur hlýindakafla, en eins og oft áður er skitið í nytina undir mánaðarmótin apríl-maí, trúlega páskahret. Sauðburðartíð allgóð utan kalsarigning eða slydda um miðjan maí. Sumarmánuðirnir júní og júlí líta allvel út þó eitthvað kólni um fardaga. Síðari hluti júlí hlýr og heyskapartíð góð. Úrkomusamara í ágúst en flæsur inn á milli. Fremur votvirðasamt til gangna. Október lakari en undanfarin ár og endar með kuldakasti sem stendur fram um miðjan nóvember. Desember blíður allt til áramóta og von á rauðum jólum sem sumir fagna en aðrir kvarta sáran yfir snjóleysi.

Við fengum þá ósk að spá fyrir um hvort Tindastóll myndi ná að landa bikar í körfubolta karla. Við urðum við þeirri beiðni og satt að segja sáum strax eftir því að hafa eitthvað verið að rýna í þessi mál, enda höfum við ekkert vit á körfubolta nema það að við vitum að Stólarnir hafa verið að standa sig frábærlega. Niðurstaðan var nefnilega ekki í samræmi við væntingar þess aðila sem óskaði eftir svari.
Munið að lífið er núna og njótið þess að vera til og hafið hugfast að gott er að gleðjast góðum með.

Óskum ykkur gæfu og gleði á nýju ári og fullt af ævintýrum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir