Vönduð tónlist í aðdraganda jóla - Skúli Einarsson og Jólahúnar

Frá tónleikum Jólahúna á Skagaströnd 2016. Mynd: Ásdís Birta Árnadóttir.
Frá tónleikum Jólahúna á Skagaströnd 2016. Mynd: Ásdís Birta Árnadóttir.

Jólahúnar munu halda sína árlegu tónleika um helgina en í ár verða tvennir tónleikar í Ásbyrgi á Laugarbakka á föstudaginn, Félagsheimilinu á Blönduósi daginn eftir og í Fellsborg á Skagaströnd sunnudaginn 8. des. Að sögn Skúla Einarssonar á Tannstaðabakka hefur undirbúningur gengið vel.

„Þetta byrjaði sem hópur áhugafólks um að halda tónleika í aðdraganda jóla. Þetta þótti mjög góð hugmynd og gekk mjög vel í nokkur ár. Ég var þátttakandi í nokkrum af þessum tónleikum fyrstu árin og hafði mjög gaman af þessu enda hafa jólalögin alltaf höfðað ágætlega til mín. Fólk skiptist á um að halda utan um verkefnið og gekk þetta alveg ágætlega enda mikið úrval af frábæru tónlistarfólki á svæðinu, sem var í fyrstu aðallega Húnaþing vestra.

Svo, eins og gengur, voru vandræði eitt árið með einhvern, til að sinna utanumhaldinu og stefndi í að ekkert yrði úr tónleikahaldi og mér fannst alveg ómögulegt að láta þetta niður falla, svo að ég ákvað að taka að mér að sjá um þetta skemmtilega verkefni og hef gert það síðan,“ segir Skúli og bætir við að þegar farið var í að endurmeta stöðuna aðeins, var stefnan tekin á það að fá í hópinn fólk úr Austursýslunni, ýmist til að syngja eða leika á hljóðfæri. „Markmiðið var að breikka hópinn og auka í víðu samhengi samvinnu og kynni tónlistarfólks af öllu svæðinu. Þetta gekk eftir og hefur mælst vel fyrir og viðburðurinn fékk nafnið Jólahúnar.“

Skúli segir að það hafi einnig þótt spennandi að prófa að fara með þetta víðar og var ákveðið að vera með tónleika á Blönduósi og Skagaströnd auk Húnaþings vestra.

„Til að freista þess að láta þetta standa undir sér að einhverju leyti höfum við sótt um styrki bæði hjá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra og einnig hafa fyrirtæki á svæðinu styrkt okkur vel og fyrir það erum við afar þakklát. Eftir sem áður er í kringum þetta mikil sjálfboðavinna, og akstur, en hvað gerir maður ekki fyrir ánægjuna og fyrir það að láta eitthvað skemmtilegt vera að gerast,“ spyr Skúli og vel hægt að kinka kolli undir þeirri spurningu.

Hann segir dagskrá tónleikanna mjög fjölbreytta og þannig að fyrir hlé verða  leikin sex til átta lög, í hléinu mun heimafólk selja eitthvert góðgæti, gjarnan kakó, smákökur, jólalögg o.fl. og myndast þá oft hugguleg jólaspjallstemning. Eftir hlé er stutt ávarp leikmanns og síðan seinni hluta tónleikanna aftur sest við hljóðfærin og leikin átta til tíu í viðbót.

„Í ár höldum við tvenna tónleika í félagsheimilinu Ásbyrgi á Laugarbakka föstudaginn 6. desember klukkan 17 og 20. Verðum í Félagsheimilinu á Blönduósi á jólahlaðborði þar laugardaginn 7. desember og síðan á Skagaströnd í Félagsheimilinu Fellsborg klukkan 17 sunnudaginn 8. desember. Í ár er nokkuð um að erlend lög hafi fengið íslenska jólatexta sem verða frumfluttir á tónleikunum. Í lokin vill Skúli hvetja fólk til að koma og hlusta á heimafólk flytja vandaða tónlist og eiga um leið samverustund í aðdraganda jólanna.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir