Yfirlýsing frá Elínu R. Líndal.

Ég, Elín R. Líndal, hef ákveðið að bjóða mig fram í 2. sætið á lista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi í kosningunum í vor.

Nú um stundir er öllum ljóst að á undanförnum árum hefur margt í okkar þjóðfélagi verið byggt á tálsýn. Mikið uppbyggingar- og endurreisnarstarf er framundan í íslensku samfélagi, starf sem krefst víðtækrar þekkingar, reynslu og sjónarmiða beggja kynja. Umfram allt krefjast komandi tímar þess, af þeim sem til forystu veljast, að ákvarðanir séu teknar sem eru raunsannar fyrir atvinnulífið, fjölskyldurnar og velferð í landinu. Nú þurfum við Íslendingar að standa í fæturna, vinna saman og hafa úthald til að koma góðum áformum í framkvæmd. Í öllum þessum störfum felast áskoranir sem ég er reiðubúin að takast á við af festu, ábyrgð og fullri einurð.
 
Ég er 52 ára, bý á Lækjamóti í Húnaþingi vestra, er gift Þóri Ísólfssyni og eigum við þrjú börn.  Ég er gagnfræðingur frá Héraðsskólanum að Reykjum í Hrútafirði, með Diploma í opinberri stjórnsýslu og stjórnun frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands og Diploma í rekstrar- og viðskiptafræðum frá Háskólanum á Akureyri.

Ég er framkvæmdastjóri Forsvars á Hvammstanga og formaður byggðaráðs Húnaþings vestra.  Mér hafa um árabil verið falin fjölmörg trúnaðarstörf, bæði í héraði og á landsvísu. M.a. sit ég í stjórn Íbúðalánasjóðs, í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga, í verkefnisstjórn rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma fyrir hönd sveitarfélaganna í landinu, er formaður Tryggingarsjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga. Ég hef tekið virkan þátt í rekstri atvinnufyrirtækja, verið í forystusveit sveitarfélagsins Húnaþings vestra frá upphafi þess og var í nokkur ár stjórnarformaður Heilbrigðisstofnunarinnar Hvammstanga. Aukið jafnrétti kynjanna er málefni sem mér er hugleikið og vann ég að því í átta ár sem formaður Jafnréttisráðs.

Ég hef starfað í Framsóknarflokknum um árabil og gegnt þar ýmsum trúnaðarstörfum, svo sem í landstjórn, miðstjórn, sveitarstjórnarráði og varaþingmaður. Þau störf sem ég hef unnið fyrir flokkinn hafa veitt mér ánægju og verið mitt aðaláhugamál í gegnum tíðina.

Með framsóknarkveðju, Elín R. Líndal
e.lin@forsvar.is  893 6922

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir