Fréttir

Hafnfirðingar sáu rautt á Húnavöku

Það var leikið á Blönduósvelli síðdegis í gær en þá tóku heimamenn í Kormáki/Hvöt á móti Hafnfirðingum í liði ÍH. Gestirnir hafa ekki verið að sperra stél í 3. deildinni það sem af er sumars og það var því úrvals tækifæri fyrir lið Húnvetninga að tryggja enn betur stöðu sína í deildinni. Það reyndist ekki erfitt því gestirnir gerðu sjálfum sér lítinn greiða með því að missa tvo leikmenn af velli með rautt spjald strax í fyrri hálfleik. Lokatölur voru 4-0.
Meira

Mikilvægur sigur Tindastóls gegn Úlfunum

Tindastólsmenn fóru suður í dag og spiluðu við lið Úlfanna á Framvellinum í 4. deildinni. Leikurinn var ansi mikilvægur en nú er barist um sæti í úrslitakeppninni í haust. Lið Úlfanna var eitt tveggja liða sem Stólunum tókst ekki að leggja að velli í fyrri umferðinni en liðin gerðu þá 2-2 jafntefli í spennandi leik. Hefðu Stólarnir tapað hefðu Úlfarnir komist upp að hlið þeirra á töflunni en sú varð ekki raunin því Stólarnir náðu í flottan 2-3 sigur og styrktu stöðu sína í riðlinum.
Meira

Frábær stemning á Húnavöku

Húnvetningar unnu stóra pottinn í veðurlottóinu þegar fjölskyldudagskrá Húnavöku fór fram í dag og fallegi Blönduós skartaði sínu fegursta. Enda var fjölmenni á svæðinu við íþróttamiðstöðina þar sem Villi Naglbítur kynnti fjölbreytta dagskrárliði og var með skemmtiatriði. Taylor's Tivoli sló í gegn hjá yngstu kynslóðinni svo eitthvað sé nefnt. Að dagskránni lokinni var fótboltaleikur, sundlaugarpartý og kótilettukvöld og nú í kvöld stjórnaði Magni Ásgeirs brekkusöng og senn hefst stórdansleikur með hljómsveitinni Á móti sól.
Meira

Þolinmæði, útsjónarsemi og góður undirbúningur lykillinn að því að ná góðum myndum af fuglum

Ljósmyndir Blönduósingsins, Róberts Daníels Jónssonar, af hafarnarhreiðri hafa vakið verðskuldaða athygli en nú í vikunni fór hann með sérfræðingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands til að merkja og mynda hafarnarunga. „Ég átti stórkostlegan dag, VÁ hvað þetta var geggjað! Ég var að upplifa draum sem ég hef átt síðan ég var barn,“ segir Róbert á Facebook-síðu sinni þar sem sjá má fjölda hreint frábærra mynda úr ferðinni. Feykir hafði samband við Robba Dan og forvitnaðist um galdurinn við að taka góðar fuglamyndir.
Meira

Skaparinn lék sér með skæru litina

Hverjum þykir víst sinn fugl fagur en það er þó sennilega staðreynd að Skagfirðingum finnst fátt tilkomumeira en Fjörðurinn þeirra fagri þegar sumarsólin litar miðnæturhimininn við ystu sjónarrönd. Þau hafa ekki verið mörg þannig kvöldin í sumar en í gær tók skaparinn sig til og sturtaði úr litakassanum sínum og skapaði listaverk sem ekki var hægt að líta framhjá.
Meira

Útitónleikar Húnavöku í kvöld og stútfull dagskrá alla helgina

Húnavaka á Blönduósi hófst í gær og er þetta í 19. skipti sem þessi metnaðarfulla bæjar- og fjölskylduhátíð er haldin. Dagskráin er fjölbreytt og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Samkvæmt frétt Húnahornsins þá verða útitónleikar á Húnavöku í kvöld og fara þeir fram aftan við íþróttamiðstöðina á Blönduósi.
Meira

Pétur Arason verður fyrsti sveitarstjóri Húnabyggðar

Sveitarstjórn Húnabyggðar hefur ráðið Pétur Arason sem sveitarstjóra. Alls sóttu 14 umsækjendur um starfið en sex drógu umsóknir sínar til baka. Pétur rekur ráðgjafafyrirtækið Manino sem sérhæfir sig í stjórnendaráðgjöf, kennslu og ráðstefnuhaldi með áherslu á nýsköpun í stjórnun. Pétur er reynslumikill stjórnandi sem starfað hefur bæði hjá erlendum og innlendum fyrirtækjum og m.a. hjá Marel í 10 ár. Sem ráðgjafi hefur Pétur unnið með fjölda fyrirtækja, sveitarfélaga, stofnana og félagasamtaka. Hann hefur umfangsmikla reynslu af stefnumótunar- og umbreytingaverkefnum bæði í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi og á íslenskum atvinnumarkaði. Pétur hefur einnig kennt við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík og haldið fjölmörg námskeið um nútíma stjórnunaraðferðir.
Meira

Skagfirski kammerkórinn á Heimilisiðnaðarsafninu á sunnudag

Næstkomandi sunnudag, í enda Húnavöku, syngur Skagfirski kammerkórinn á Stofutónleikum Heimilisiðnaðarsafnsins á Blönduósi að Árbraut 29. Stjórnandi tónleikanna er Helga Rós Indriðadóttir.
Meira

Íslenska smáforritið HorseDay notað við kennslu í hestafræðideild Háskólans á Hólum

Í vor var íslenska snjallforritinu HorseDay hleypt af stokkunum en með forritinu fæst mikilvæg yfirsýn yfir þjálfun hesta og umhirðu, bein tenging við WorldFeng og GPS skráning við þjálfun hesta og á hestaferðum líkt og þekkist innan annarra tómstunda auk samfélagsumhverfis fyrir íslenska hestinn.
Meira

Fyrsta skemmtiferðaskipið á Sauðárkrók síðan 1977

Um hádegisbilið í dag lagðist skemmtiferðaskipið Hanseatic Nature að bryggju á Sauðárkróki, það fyrsta frá árinu 1977 er þýska skipið World Discoverer sigldi inn Skagafjörðinn. Skipsins hefur verið beðið með eftirvæntingu í samfélaginu en alls eru fjórar komur bókaðar í sumar, tvær í júlí og tvær í ágúst.
Meira