Húnvetningar og Skagfirðingar öflugir á Fjórðungsmóti

Kalsi frá Þúfum og Mette Manseth. Mynd: Eiðfaxi.
Kalsi frá Þúfum og Mette Manseth. Mynd: Eiðfaxi.

Í gær lauk flottu Fjórðungsmóti Vesturlands sem haldið var samhliða landssýningu kynbótahrossa í Borgarnesi. Mótið var vel sótt af Húnvetningum og Skagfirðingum sem gerðu gott mót.

Kalsi frá Þúfum og Mette Manseth sigruðu A-flokk gæðinga með einkunnina 8,86. Kalsi er úr hennar eigin ræktun undan Trymbli frá Stóra-Ási og Kylju frá Stangarholti. Kalsi og Mette voru efst eftir forkeppni og létu því forystuna aldrei af hendi. Þau kepptu fyrir Hestamannafélagið Skagfirðing.

Í B-flokki gæðinga var mikil spenna. Tumi frá Jarðbrú og Þórarinn Eymundsson enduðu þar í öðru sæti með einkunnina 8,99, sömu einkunn og Adrían frá Garðshorni og Daníel Jónsson, sem enduðu í fyrsta sæti eftir dómarauppröðun. Tumi og Þórarinn kepptu fyrir Skagfirðing. List frá Þúfum og Mette Manseth urðu í þriðja sæti með 8,83, glæsilegar tölur þar á ferð.

Guðmar Freyr Magnússon hélt áfram að vera fótbrotinn og sigursæll en hann sigraði B-flokk ungmenna á Eld frá Íbishóli, fyrir Skagfirðing, með 8,68 í einkunn. Eysteinn Tjörvi Kristinsson og Laukur frá Varmalæk urðu í öðru sæti með 8,59. Þeir kepptu fyrir Hestamannafélagið Þyt í Húnaþingi vestra. Freydís Þóra Bergsdóttir og Ösp frá Narfastöðum, fyrir Skagfirðing, fengu einkunnina 8,44 og tóku þriðja sætið.

Í Unglingaflokki sigruðu Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal og Freyðir frá Leysingjastöðum, fyrir Þyt, með 8,57. Skagfirskar dömur röðuðu sér síðan í sætin þrjú fyrir neðan. Ólöf Bára Birgisdóttir og Jökull frá Nautabúi urðu önnur með 8,41, Þórgunnur Þórarinsdóttir og Hnjúkur frá Saurbæ þriðju með 8,40, og Katrín Ösp Bergsdóttir og Ölver frá Narfastöðum fjórðu með 8,37.

Indriði Rökkvi Ragnarsson og Griffla frá Grafarkoti urðu önnur í barnaflokki með einkunnina 8,40. Þeir kepptu fyrir Þyt.

Á fjórðungsmótinu var einnig keppt í opnum töltgreinum og 100 metra flugskeiði. Magnús Bragi Magnússon og Óskadís frá Steinnesi sigruðu B-úrslit í tölti T1, fyrir Skagfirðing, með einkunnina 8,00.

Sonja Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir og Jónas frá Litla-Dal urðu önnur í T3 með 6,97. Þau kepptu fyrir Skagfirðing. Eysteinn Tjörvi og Laukur frá Varmalæk urðu þar þriðju með 6,90.

Í T3 ungmenna sigruðu Rakel Gígja Ragnarsdóttir og Trygglind frá Grafarkoti með einkunnina 7,00. Guðmar Hólm Ísólfsson Líndal og Freyðir frá Leysingjastöðum hrepptu þriðja sætið þar með 6,73. Þau bæði kepptu fyrir Þyt.

Í 100 metra skeiði urðu Jóhann Magnússon og Fröken frá Bessastöðum önnur, fyrir Þyt, á tímanum 7,65 sekúndum. Mette Manseth og Vivaldi frá Torfunesi urðu síðan þriðju á tímanum 7,83.

Einnig var keppt um besta ræktunarbúið á mótinu. Íbishóls-fólk var þar með glæsilega sýningu og sigruðu.

/SMH

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir