Á laugardaginn fáum við í Skagfirðingasveit rausnarlegustu gjöf í sögu björgunarsveitarinnar afhenta. Flestir hér í Skagafirði þekkja væntanlega raunasöguna um það hvernig nýjum og fullkomnum björgunarbáti sem við höfðum keypt og greitt fyrir var að stórum hluta til beinlínis stolið af okkur. Báturinn var því aldrei smíðaður og hátt í tíu milljónir króna sem við höfðum safnað fóru í súginn. Færri vita e.t.v. að FISK Seafood, sem styrkt hafði kaupin með umtalsverðum hætti ákvað að bæta okkur skaðann með því að fjármagna að fullu nýjan og jafnvel enn fullkomnari björgunarbát. Andvirði bátsins, sem hlotið hefur nafnið Aldan, er um 20 milljónir króna og þarf kannski ekki að taka það fram að þessi gjöf er sú langstærsta sem Skagfirðingasveit hefur nokkru sinni veitt viðtöku.
Í Skagafirði eru í dag níu félagsheimili auk Menningarhússins Miðgarðs sem var skilgreint sem félagsheimili áður en ráðist var í verulegar endurbætur á húsnæðinu með stuðningi ríkisins. Sá stuðningur kom til vegna áherslubreytinga hjá ríkinu í uppbyggingu menningarhúsa í landsbyggðunum, en honum var á þeim tíma ætlað að gera menningartengdri starfsemi hærra undir höfði en talið var að félagsheimilin hefðu almennt burði til.
Baula þær enn beljurnar á Bjarnastöðum er fyrirsögn sem hr. Hundfull skrifaði árið 2013 þegar þriggja daga átveislan byrjaði það árið, þ.e. bolludagur, sprengidagur og öskudagur. Eftir að hafa lesið þessa fínu hugleiðingu hans er við hæfi að endurbirta hana því það eru eflaust margir sammála honum í þetta skiptið!