Gekk yfir Broncoinn hans Kidda Hansen - Óli Katt

Hver er maðurinn?
Ólafur Kristinn Guðmundsson, alltaf kallaður Óli Katt

Hverra manna ertu?
Sonur Maríu Símonardóttur (Lillý Símonar)og Guðmundar Sæmundssonar. Afi og Amma í móðurætt voru Sigríður Þorsteinsdóttir (Sigga Sím) ljósmóðir og sjúkraliði og Símon Jónsson smiður en ég var að hluta til alinn upp hjá þeim.

 

Árgangur?
Úr þeim fræga og fjölmenna ´65 árgang sem sló víst öll fjöldamet á sínum tíma.

Hvar elur þú manninn í dag?
Hef búið á Króksaranýlendunni Akranesi síðustu 14 árin en ég kom hingað bara til að vinna í 3 mánuði en er hér enn.

Fjölskylduhagir?
Er einhleypur en bý með tíkinni Týru og gítarasafninu mínu.

Afkomendur?
Engir svo ég viti.....sem er ótrúlegt miðað við líferni fyrri ára !

Helstu áhugamál?
Líf mitt snýst að stórum hluta um hesta og hestamennsku og hefur þetta áhugamál mitt (atvinna um tíma) heldur færst í aukana með árunum og var nú slæmt fyrir. Svo hefur tónlistin alltaf skipað stóran sess hjá mér og hefur einnig tekið meiri og meiri tíma undanfarin ár.

Við hvað starfar þú?
Ég starfa sem rafsuðumaður hjá Meitli ehf. á Grundartanga og sinni alskyns viðhaldi í járnblendiverksmiðju ELKEM á Grundartanga en segist oft vera fjölvirki þar sem ég hef starfað við flestar iðngreinar í gegnum tíðina.

 

Heima er ...alltaf á Króknum.

Það er gaman....þegar ég kem í Skagafjörðinn, sem ég geri minnst einu sinni á ári, um Laufskálaréttarhelgina.

Ég man þá daga er ...það snjóaði almennilega á Króknum og ég gat gengið beint af svölunum fyrir ofan Bláfell út í skafl og gekk yfir Broncoinn hans Kidda Hansen sem var týndur í skaflinum.

 

Ein gömul og góð sönn saga

Um margra ára skeið var ég rótari og allt muglig maður hjá Bad Boys/Metan/Herramenn, sem var sama hljómsveitin undir mismunandi nöfnum. Þvældist ég með þeim víða og ekki var nú alltaf gagn af mér þegar kom að því að taka saman eftir böll því ég var ýmist týndur eða svo kenndur að það var öruggara að láta aðra um að handfjatla hljóðfærin. Nema hvað, eitt sinn voru Herramenn að spila á Skagaströnd og eins og svo oft þá var okkur boðið í partý eftir ball en allir voru nú samt sammála um það að best væri að koma sér heim. Eiki Sverris hafði fengið far með okkur í rútunni og sátum við Eiki og vorum að spjalla en þegar rútan er komin svona kílómeter út fyrir Skagaströnd þá allt í einu litum við hvor á annan og sögðum í kór "hey, stoppiði rútuna, við verðum eftir" og svo var hlaupið til baka og farið í brjálað partý þar sem Eiki týndist reyndar strax en ég kom ekki heim fyrr en um kvöldmat daginn eftir, á bíl sem ég fékk lánaðan hjá bláókunnugum manni sem var í partýinu. Hann kom svo daginn eftir og náði í bílinn sinn og man ég ekki eftir því að hafa séð þennan greiðvikna mann aftur.

 

Spurning til þín....Hvert er hið raunverulega upphaf á viðurnefninu „Katt“?

Upphafið má rekja til þess þegar ég var 8 ára og bjó ásamt mömmu, Dalla fósturpabba,Sirrý systir og Símoni bróðir fyrir ofan Bláfell á Skagfirðingabraut og átti kött sem var mjög kelinn og hafði nautn af því að láta klappa sér þegar hann var að þvælast utan við Bláfell og var þá farið að kalla mig Óli sem á köttinn. Svo þróaðist það í Óli Köttur og svo þótti frænda mínum frá Siglufirði það óskaplega fyndið að kalla mig Óla Katt og hef ég gengið undir því nafni síðan ég var 10-11 ára og hefur það fylgt mér alla tíð og margir sem eingöngu þekkja mig undir því nafni. Og enn er ég kallaður Óli Katt.

Hvern vilt þú sjá svara þessum spurningum og hvaða spurningu myndir þú leggja fyrir viðkomandi?

Nafn....Kristján Gíslason

Spurningin er ....Hvað fór mikill tími í hárgreiðsluna á upphafsárum Herramanna?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir