Anna Karen og Arnar Geir enn á ný klúbbmeistarar GSS

Mynd: Anna Karen og Arnar Geir klúbbmeistarar GSS. Mynd: Hjörtur Geirmundsson
Mynd: Anna Karen og Arnar Geir klúbbmeistarar GSS. Mynd: Hjörtur Geirmundsson

Árlegt meistaramót fullorðinna hjá Golfklúbb Skagafjarðar var haldið dagana 5. – 8. júlí. Keppt var í fimm mismunandi flokkum og tóku 43 klúbbmeðlimir þátt.

Greint er frá því á vef GSS að keppendur hafi mátt þola rigningu, rok og svakalegan kulda en á fjórða degi hafi sólin loks látið sjá sig og var mikið stuð og fjör á Hlíðarenda þegar keppendur kláruðu sínar seinustu holur.

Meistaraflokkur karla var afskaplega spennandi og skiptust Jóhann Örn Bjarkason og Arnar Geir Hjartason á forustunni alveg þangað til á seinustu holu á laugardaginn þar sem Arnar átti glæsilegt inná högg í öðru höggi og setti niður pútt fyrir fuglinum og varði því klúbbmeistaratitilinn sem hann hefur unnið núna 10 sinnum í röð, 11 sinnum í heildina. Arnar endaði mótið á 315 höggum. Jóhann tók annað sætið á 319 höggum og Hákon Ingi Rafnsson tók 3 sætið á 323 höggum.

Klúbbmeistaratitillinn í meistaraflokki kvenna fór örugglega aftur í hendurnar á Önnu Karen Hjartardóttur, sem tók hann í fjórða sinn í röð. Hún endaði mótið á 322 höggum. Annað sætið tók Una Karen Guðmundsdóttir á 349 höggum og þriðja sætið tók hún Hildur Heba Einarsdóttir á 353 höggum.

Fyrsti flokkur karla endaði á að vera mest spennandi flokkurinn en þrír voru jafnir eftir seinustu holuna og þurftu að fara í bráðabana. Friðjón Bjarnason, Þórður Ingi Pálmarsson, og Hjörtur S. Geirmundsson voru jafnir með 359 högg og spiluðu þrjár holur aukalega í bráðarbana þar sem Friðjón endaði á að taka fyrsta sætið. Þórður endaði í öðru sæti og svo tók Hjörtur þriðja sætið. Frábær frammistaða hjá öllum þrem og æðislegt fyrir áhorfendur að fá að fylgjast með svona spennandi keppni.

Fyrsti flokkur kvenna var ekki alveg jafn spennandi en Sylvía Dögg Gunnarsdóttir tók sigurinn örugglega á 400 höggum slétt. Hörð barátta var þó um annað og þriðja sætið. Annað sætið endaði hjá Hafdísi Skarphéðinsdóttur sem fór á 417 höggum og þriðja sætið tók Aldís Hilmarsdóttir á 423 höggum.

Sigurinn í öðrum flokk for líka frekar örugglega í hendurnar á Ragnari Ágústssyni sem endaði á 404 höggum. Pétur Björnsson fylgdi honum í öðru sæti á 467 höggum og Kristinn Brynjólfsson tók þriðja sætið á 519 höggum.

Í öldungaflokknum var spennandi barátta á milli Guðrúnar Björg Guðmundsdóttur og Guðna Kristjánsson sem spiluðu höggleik með forgjöf en Guðrún endaði á að taka fyrsta sætið á 113 höggum og Guðni tók annað sæti ekki langt á eftir á 119 höggum.

Seinast en ekki síst var háforgjafaflokkurinn sem spilaði punktakeppni með forgjöf. Berglind Rós Guðmundsdóttir, sem er ekki nema 13 ára, tók fyrsta sætið með heila 45 punkta. Helga Daníelsdóttir fylgdi fast á eftir í öðru sæti með 40 punkta og Hrefna Gerður Björnsdóttir tók þriðja sætið með 34 punkta. Skemmtilegt er að segja frá því að Hrefna er bara nýbyrjuð í golfi og því frábær árangur hjá henni.

Einnig voru aukaverðlaun á fyrstu 3 dögunum sem voru bæði mismunandi og skemmtileg. Á miðvikudag voru verðlaun fyrir að vera næst holu á flöt í öðru höggi á 5/14 braut sem hann Brynjar Már Guðmundsson tók. Á fimmtudag voru verðlaun fyrir að vera næst holu á flöt í upphafshöggi á 6/15 braut sem hann Ragnar Ágústsson tók. Seinast á föstudeginum voru verðlaun fyrir fæst pútt á 18 holum sem Jóhann Örn Bjarkason tók með aðeins 24 pútt.

Mótinu lauk svo með lokahófi þar sem var borið fram dýrindis veitingar og verðlaunaafhending fór fram. Glæsileg Meistaramótsvika að baki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir