Auglýst eftir leikmönnum Tindastóls eftir vetrarfrí!

Baldur hafði litla ástæðu til að gleðjast í gær. MYND: HJALTI ÁRNA
Baldur hafði litla ástæðu til að gleðjast í gær. MYND: HJALTI ÁRNA

Það gerðu örugglega flestir ráð fyrir laufléttri upphitun Tindastóls fyrir þrjá strembna leiki í lokaumferðum Dominos-deildarinnar, þegar fall-lið Fjölnis mætti í Síkið í gærkvöldi. Fyrirfram unnir leikir eiga það hins vegar til að enda sem bráðsleip bananahýði og sú varð raunin í gær því Tindastólsliðið mætti til leiks með hægri hendina í fatla og hausinn öfugt skrúfaðan á. Lið gestanna var yfir lengstum í leiknum en líkt og á móti Val hér heima fyrr í vetur, þá áttum við ekkert skilið úr leiknum og eins stigs tap makleg málagjöld. Lokatölur 80-81.

Lið Fjölnis hafði aðeins unnið einn leik í vetur áður en þeir heimsóttu Síkið. Þeir Grafarvogspiltar hafa oft á tíðum tapað leikjum á síðustu sekúndunum og leikmenn og þjálfarihreinlega ekkert skilið í því hvernig þeir fóru að því. Það má því kannski segja að þeir hafi verið sýnd veiði en ekki gefin. Brodnik og Pétur fóru vel af stað og jafnt var á flestum tölum upp í 9-9 en þá gerðu Fjölnismenn þrjár þriggja stiga körfur í röð. Perkovic svaraði og Bilic gerði síðan fimm stig í röð og staðan 16-21. Bilic skoraði ekki aftur fyrr en tæpar fimm mínútur voru til leiksloka. Liðin gerðu ekki körfu næstu þrjár mínútur en Perkovic lagaði stöðuna fyrir lok fyrsta leikhluta. Staðan 18-21. Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta. Pétur kom inn með orku og hann kom sínum mönnum yfir, 30-28, eftir 16 mínútur en gestirnir svöruðu og þeir leiddu með einu stigi í hálfleik, staðan 36-37.

Stuðningsmenn Stólanna hafa sennilega reiknað með að Baldur Þór næði að hrista upp í liði sínu í hálfleik en það var öðru nær. Eftir þriggja mínútna leik var staðan 45-47 en þá gerðu gestirnir þrettán stig í röð á fjórum mínútum og Bilic og Geiger algjörlega úti að aka í liði Stólanna og eiginlega var Kaninn okkar svo slakur fyrstu 39 mínútur leiksins að það var átakanlegt. En hvað um það; í stöðunni 45-60 tók Baldur leikhlé og fékk loks svar frá sínum mönnum sem náðu 11-0 kafla þar sem Pétur, Brodnik, Axel og Viðar fóru mikinn. Axel setti tvo þrista undir lok þriðja leikhluta og staðan 59-63 fyrir lokafjórðunginn og hann minnkaði muninn í tvö stig í upphafi fjórða leikhluta. Stólunum var hins vegar fyrirmunað að nýta næstu sóknir sínar og það mest fyrir einbeitingarleysi og klaufaskap. 

Um miðjan fjórða leikhluta setti Srdan Stojanovic þrist og staðan 63-70 fyrir Fjölni en þá náðu Stólarnir góðri vörn og hófu að saxa á forskotið og Brodnik jafnaði leikinn, 70-70. Áttu þá kannski flestir von á hinum alræmda slæma kafla gestanna. Það var hinsvegar engin pressa á liði Fjölnis sem var þegar fallið og þeir héldu bara áfram að spila sinn leik og voru yfir 71-76 þegar 40 sekúndur voru eftir. Þá loks dúkkaði Geiger upp með þrist fyrir Stólana. Srdan svaraði með tveimur vítum en Pétur negldi niður þrist og minnkaði muninn í eitt stig, 77-78, þegar 17 sekúndur voru eftir. Stólarnir brutu á Srdan sem setti niður vítin tvö. Stólarnir tóku leikhlé og strax í kjölfarið gerði Geiger annan þrist og jafnaði leikinn 80-80. Fjölnismenn höfðu 10 sekúndur til að gera sigurkörfuna og sá tími virtist ekki ætla að duga en Róbert Sigurðsson reyndi erfitt skot þegar sekúnda var eftir. Og Viðar braut á honum. Róbert setti fyrra skotið niður og þannig fór um sjóferð þá.

Þó villan hjá Viðari hafi verið galin þá væri ósanngjarnt að skella skuldinni á hann eftir leik. Á meðan Viðar var á vellinum voru Stólarnir 15+ og enginn leikmaður Tindastóls var nálægt þeirri tölu. Brodnik og Pétur áttu góðan leik og gerðu báðir 24 stig en Geiger lagaði tölfræðina sína með þessum tveimur þristum í lok leiks og endaði með tíu stig. Axel var ágætur og gerði átta stig, Bilic sem hefur verið Stóla bestur í vetur gerði sjö stig í leiknum og boltinn hreinlega vildi ekki niður hjá honum. Perkovic var sterkur í vörninni en gerði aðeins fjögur stig og Helgi Rafn gerði þrjú stig en hann var í puttaveseni og spilaði lítið. Hvorki Hannes né Friðrik fengu að stíga á parketið í gæt og sennilega var Baldur að reyna að keyra Bilic og Geiger í gang en það gekk ekki upp í gær. Tölfræði liðanna var ósköp svipuð en lið Fjölnis gerði vel í leiknum og lét ekki erfiðan útivöll hafa áhrif á sig. 

Lið Tindastóls er að berjast um heimaleikjarétt í úrslitakeppni og mátti ekki við því að tapa stigum með svona steingeldri frammistöðu. Næst mæta strákarnir liði Þórs frá Þorlákshöfn, svo koma ÍR-ingar í heimsókn en síðasti leikurinn er í Grindavík. Nú þurfa menn að stilla kúrsinn og hífa upp brækurnar. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir