B-lið Keflavíkur hafði betur gegn Stólastúlkum

Karen Lind var með fimm stig gegn Keflavíkurstúlkum. MYND: HJALTI ÁRNA
Karen Lind var með fimm stig gegn Keflavíkurstúlkum. MYND: HJALTI ÁRNA

Lið Tindastóls tók á móti Keflavík b í 1. deild kvenna í körfubolta nú á laugardaginn í Síkinu. Stólastúlkum hefur gengið afleitlega það sem af er ári en að þessu sinni fékk Árni Eggert meira framlag frá sínum stúlkum og það var ekki fyrr langt var liðið á þriðja leikhluta að gestirnir snéru leiknum sér í hag. Enn eitt tapið var því niðurstaðan en lokatölur leiksins urðu 62-74 fyrir Keflavík b.

Gestirnir gerðu fyrstu körfu leiksins en lið Tindastóls svaraði og var skrefinu á undan allan fyrsta leikhluta, komst mest sex stigum yfir, 17-11, eftir þrist frá Tess. Agnes María svaraði fyrir Keflavík og staðan 17-14 að fyrsta leikhluta loknum. Hera Sigrún og Marín Lind gerðu fyrstu körfur Stólastúlkna í öðrum leikhluta og síðan tók Tess við keflinu. Þristur frá Kareni Lind kom liði Tindastóls í 32-20 þegar annar leikhluti var rúmlega hálfnaður en þá kom 10-0 kafli hjá gestunum og staðan í hálfleik 34-32 fyrir Tindastól.

Heimastúlkur héldu forystunni fyrstu mínútur þriðja leikhluta. Eydís Eva minnkaði muninn fyrir gestina í eitt stig, 40-39, með þristi en í kjölfarið fylgdi karfa frá Tess og þristur frá Marínu Lind og staðan 45-39. Þá kom annar 10-0 kafli hjá Keflvíkingum og lið þeirra var yfir að loknum þriðja leikhluta, 49-52, og þær hófu fjórða leikhluta með þristi. Rakel Rós, sem lítið hefur spilað að undanförnu vegna meiðsla, svaraði með þristi en næstu mínútur bættu Keflavíkurstúlkur við forystu sína hægt og sígandi og voru komnar með gott forskot þegar 3-4 mínútur voru til leiksloka. Það fór svo að að lið Tindastóls náði ekki áhlaupi í lokin og sigurinn því gestanna.

Tessondra Williams var atkvæðamest í liði Tindastóls með 21 stig og 16 fráköst en Marín Lind skilaði 20 stigum. Þá gerði Eva Rún sjö stig og tók tíu fráköst. Í liði Keflavíkur gerði Anna Ingunn Svansdóttir 27 stig og tók sjö fráköst og Eydís Eva Þórisdóttir gerði 16 stig og tók 13 fráköst. Lið Tindastóls vann frákastabaráttuna 55/45 en hittni Tindastóls var ekki góð innan teigs. 

Nú er orðið ljóst að lið Tindastóls á ekki lengur möguleika á að komast í úrslitakeppni 1. deildar en liðið er með 16 stig en næsta lið fyrir ofan, Njarðvík, er með 24 stig. Stólastúlkur eiga eftir að spila fjóra leiki líkt og Njarðvík en liðin mætast einmitt á morgun í Njarðvík.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir