Baldri leist mjög vel á Deremy

Baldur Þór Ragnarsson. MYND: HJALTI ÁRNA
Baldur Þór Ragnarsson. MYND: HJALTI ÁRNA

Það styttist í að Dominos-deildin fari af stað á nýjan leik en fyrstu leikirnir í síðari umferð deildarkeppninnar eru á sunnudag. Lið Tindastóls heldur suður yfir Holtavörðuheiðina á mánudaginn og lætur ekki staðar numið fyrr en komið verður í Sláturhúsið í Keflavík þar sem strákarnir mæta sterku liði heimamanna kl. 19:15.

Eins og sést hefur í fréttum síðustu daga hafa liðin í Dominos-deildinni verið að styrkja sig og á síðasta degi ársins 2019 var tilkynnt að lið Tindastóls hefði samið við Deremy Geiger um að spila með liðinu á nýju ári. Feykir sendi örfáar spurningar á Baldur Þór Ragnarsson, þjálfara Tindastóls, varðandi nýja leikmanninn.

Hverjir eru styrkleikar Geigers og hver er hugmyndin með því að fá hann til liðsins? „Mjög mikil reynsla úr evrópskum körfubolta, góður skotmaður, góður pikk og ról leikmaður. Einnig er hann agaður og getur stjórnað leiknum á mikilvægum augnablikum. Þannig að hann á að styrkja liðið.“ 

Hvers vegna ákváðu Stólarnir að bæta við sig kana? „Evrópurmarkaðurinn er erfiður núna og eru flestir góðir leikmenn á samningi nú þegar. Þannig að ég ákvað að skoða USA markaðinn og mér leist mjög vel á Deremy.“ 

Eru allir komnir til baka úr jólafríí og komnir í gírinn? „Allir leikmenn eru komnir til baka. Við erum bunir að æfa á hverjum degi síðan 28.des. Jasmin er klár í slaginn og verður með í næsta leik,“ segir Baldur að lokum.

Það er ekki spurning að það verður spennandi að fylgjast með baráttunni í Dominos-deildinni næstu vikurnar. Það er skammt stórra högga á milli hjá Stólunum því að nk. föstudag koma samsveitarmenn Keflvíkinga úr Njarðvík í heimsókn í Síkið og hefst leikurinn kl. 20:15 – er þá væntanlega hugmyndin að sýna hann í beinni á Stöð2Sport. Nú er bara að mæta á leiki og hvetja Stólana til sigur – hvar og hvenær sem færi gefst. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir