Baldur ánægður með leik Tindastóls í gær

Stólar höfðu ástæðu til að gleðjast í gær. Mynd frá öðrum leik Stóla. Mynd: Hjalti Árna.
Stólar höfðu ástæðu til að gleðjast í gær. Mynd frá öðrum leik Stóla. Mynd: Hjalti Árna.

Tindastóll sýndi góðan leik er Israel Martin mætti með lærisveina sína í Haukum á sinn gamla heimavöll, Síkið á Sauðárkróki, í gær. Stólar mættu vel gíraðir og tilbúnir í leikinn og létu forystuna aldrei af hendi allt frá upphafi til enda leiksins. Lokatölur 86 – 73. Nikolas Tomsick átti fínan leik í gær og hóf stigaskor Stóla um mínútu eftir að ágætir dómarar blésu til leiks.

Um miðjan fyrsta leikhluta höfðu heimamenn bætt við tólf stigum en Haukar aðeins gert tvö og staðan 14:2. Er annar leikhluti hófst var Tindastóll með 23 – 13 forystu en Pétur Rúnar, Jaka Brodnik og Shawn Glover höfðu verið öflugir í stigaskorinu.

Upphófst þá góður kafli gestanna sem minnkuðu muninn jafnt og þétt og náðu að jafna í r´tt fyrir miðjan leikhluta 26:26. Lítið var skorað í kjölfarið en Stólar stigu upp og komu sér í ágæta stöðu er tvær mínútur voru til hálfleiks 37:30 en hálfleikstölur urðu 42:34.

Í seinni hálfleik juku Stólar forystuna jafnt og þétt og þegar um þrjár mínútur voru eftir náðu Stólar sinni mestu forystu í leiknum 60:45 sem þeir gáfu ekki svo auðveldlega eftir en staðan í lok þriðja leikhluta var 68:55.

Sama var uppi á teningnum í fjórða leikhluta, Stólar ávallt með góða forystu og gestirnir ekki með nein svör við góðum leik heimamanna. Lokatölur 86:73.

Shawn Glover var öflugur og skilaði 29 stigum og stigahæstur Stóla. Nikolas Tomsick átti sinn besta leik fyrir Stóla í gær, lét boltann ganga og náði góðum skotum og setti 16 stig. Vonandi fara þriggja stiga skotin að detta en einungis tvö af átta rötuðu gegnum hringinn í gær. Jaka Brodnik virðist vera búinn að finna fjölina sína en hann skoraði 15 stig og átti mjög fínan leik. Pétur Rúnar Birgisson sýndi það og sannaði að hann er kóngurinn í liðinu og stýrði því af mikilli festu og skilaði ellefu stigum. Aðrir í liðinu skiluðu sínu hlutverki með sóma og gaman að sjá þær framfarir sem orðið hafa á hollingu liðsins frá fyrri leikjum. Stólar hafa nú spilað átta leiki og unnið fjóra þeirra og sitja nú í 7. sæti með átta stig, jafn mörg og Njarðvík og ÍR, sem á einn leik til góða. Grindavík og Þór Þorlákshöfn eru með tíu stig og Keflavík og Stjarnan með tólf en Suðurnesja liðið getur tyllt sér á toppinn með sigri á KR í kvöld. 

Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, var ánægður með leik liðsins í gær og segir liðið hafa gert vel í vörn og sókn og tók undir með blaðamanni að meira flæði og hreyfing hefði verið í sóknarleik Stólanna í gær en í undanförnum leikjum. „Já, ég er sammála því. Leikmenn eru farnir að treysta og trúa hver á annan.“

Gengi Stóla hefur verið stirt í fyrstu leikjunum eftir áramótin þó liðið hafi skorað mikið þá hefur það einnig fengið á sig margar körfur. Var Baldur spurður hvort varnarleikurinn hafi verið akkilesarhæll liðsins og hvort hann telji sig hafa komist yfir þann þröskuld?

„Við erum að taka skref í rétta átt, verðum aldrei komnir yfir þann þröskuld, þetta er stanslaus vinna fram að seinasta leik á tímabilinu.“

Næsti leikur er gegn Keflavík, sem getur komið sér á toppinn með sigri í kvöld, en Baldur er bjartsýnn á sigur.

„Já, ef við setjum saman góðan leik í vörn og sókn þá vinnum við Keflavík. Mér líst vel á framhaldið, gaman að prufa að spila þétt og einnig gaman að spila við góð lið,“ segir hann og kveður með hvatningar ávarpi. „Áfram Tindastóll!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir