Blússandi byr hjá Húnvetningum í boltanum

Liðsmenn Kormáks/Hvatar fagna fyrr í sumar. MYND AF AÐDÁENDASÍÐUNNI
Liðsmenn Kormáks/Hvatar fagna fyrr í sumar. MYND AF AÐDÁENDASÍÐUNNI

Bleiki valtarinn rauk í gang í kvöld þegar lið Ýmis úr Kópavogi mætti liði Húnvetninga í 3. deildinni. Þegar upp var staðið höfðu heimamenn á Blönduósi gert sjö mörk án þess að gestirnir næðu að svara fyrir sig. Lið Kormáks/Hvatar er því enn sem fyrr í öðru sæti 3. deildar þegar fimm umferðir eru eftir. Staðan er vænleg en eftir eru nokkur sleip bananhýði og það fyrsta er heimaleikur gegn liði Kára frá Akranesi nú um helgina.

Heimamenn voru snöggir úr startholunum og voru í raun búnir að vinna leikinn eftir rúmlega hálftíma leik en þá var staðan orðin 3-0. Fyrsta markið gerði Ismael Moussa á 8. mínútu og Goran bætti öðru marki á 16. mínútu. Það var síðan markamaskínan Ismael sem gerði þriðja mark heimamanna á 34. mínútu og átti þá eftir að bæta tveimur við í síðari hálfleik. Staðan 3-0 í hálfleik.

Ismael gerði þriðja mark sitt á 53. mínútu en Alberto Montilla kom heimamönnum í 5-0 átta mínútum síðar. Ismael bætti sjötta markinu við á 64. mínútu og það var síðan fyrirliðin Sigurður Aadnegard sem smurði glassúrnum á stríðstertu Húnvetninga með því að gera sjöunda markið á 81. mínútu.

Í síðustu fimm umferðunum mætir Kormákur/Hvöt fjórum af þeim liðum sem eru í efstu sex sætum deildarinnar. Það má því búast við því að næstu vikur verði aðdáendum Kormáks/Hvatar nokkuð erfiðar, taugar verði þandar og neglur munu styttast. Liðið hefur hinsvegar sýnt góðan stöðugleika í sumar og leikmenn því örugglega klárir í slaginn og með uppbrettar ermar. Áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir