Breiðhyltingar í bóndabeygju á Króknum

Sigríður Dröfn Auðunsdóttir reynir að hægja á Vigdísi Eddu en endaði á mallanum. MYND: ÓAB
Sigríður Dröfn Auðunsdóttir reynir að hægja á Vigdísi Eddu en endaði á mallanum. MYND: ÓAB

Það heldur áfram stuðið á Stólastúlkum í Inkassodeildinni. Í gærkvöldi kom lið ÍR úr Breiðholti Reykjavíkur í heimsókn á Krókinn en ÍR-stelpurnar höfðu tapað öllum leikjum sínum í deildinni í sumar og því fyrir fram reiknað með sigri Tindastóls. Niðurstaðan var 6-1 sigur og lið Tindastóls hefur nú komið sér huggulega fyrir í þriðja sæti deildarinnar sem sannarlega gleður augað.

Leiknum seinkaði örlítið þar sem annar liðsbíll ÍR tók upp á því að bila á leiðinni. Lið Tindastóls tók völdin frá fyrstu byrjun en æsingurinn var oftar en ekki of mikill í sóknaraðgerðum liðsins og krafturinn meiri en góðu hófi gegndi. Augljóst var frá upphafi að gestirnir ætluðu að reyna að halda hraðanum niðri, markvörður ÍR tók sér góðan tíma í allar aðgerðir og spilaði jafnan stutt. Það kom því í hlut varnarmanna gestanna að dúndra boltanum fram völlinn og þar unnu Stólastúlkur boltann og geystust fram. Það var að sjálfsögðu Murielle sem braut ísinn á 18. mínútu, fékk boltann inn í teig með bakið í markið, náði einni fintu og fór framhjá varnarmanninum eins og að drekka vatn og lagði síðan boltann í markið. Það er ekki grín hvað hún er góð! Vigdís Edda bætti síðan við þægilegu marki eftir undirbúning frá Murr stundarfjórðungi síðar. ÍR-liðið var nálægt því að minnka muninn rétt fyrir hlé en Lauren var á tánum í marki Tindastóls. Staðan 2-0 í hálfleik. 

Það voru ekki nema þrjár mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar Murr hafði bætt við öðru marki sínu í leiknum, sneiddi boltann í fjærhornið eftir fyrirgjöf. Vigdís Edda gerði síðan gull af marki á 52. mínútu, fékk sendingu inn á teig, tók boltann á lofti og negldi í markið. Krista Sól var borin af velli eftir klukkutíma leik og var óttast að hún hefði meiðst illa. Eftir þetta komust gestirnir aðeins betur inn í leikinn en það var engu að síður lið Tindastóls sem gerði fimmta mark sitt á 75. mínútu en þá gerði Jackie ágætt mark eftir sendingu Murr. Lið ÍR átti hörkuskot í þverslá og þær gerðu loks ágætt mark á 90. mínútu en þá komst Sigrún Erla Lárusdóttir inn fyrir vörn Tindastóls og skoraði. Það var síðan María Dögg sem átti lokaorðið, fékk stungu inn fyrir vörn ÍR og skoraði af öryggi. Lokatölur 6-1.

Lið Tindastóls situr nú í þriðja sæti Inkasso-deildarinnar og leikir liðsins flestir hin besta skemmtun. Liðið hefur skorað 25 mörk í átta leikjum en fengið á sig 18, sem er ekki nógu gott. Það hafa að meðaltali verið skoruð 5,35 mörk í leikjum Stólastúlkna í sumar og það eru fleiri en stuðningsmenn Tindastóls sem hafa tekið eftir skemmtanagildi liðsins. Liðið er stútfullt af áræðni og baráttu en stundum mættu stelpurnar halda boltanum betur og lengur.

Murielle og María Dögg átti fínan leik í gærkvöldi og Jackie og Vigdís áttu fína spretti. Leikurinn var auðvitað ekki jafn spennandi og skemmtilegur og þessi gegn Grindavík í byrjun vikunnar þar sem allt liðið var á eldi, en það þarf að klára þessa leiki þar sem yfirburðirnir eru talsverðir og það gerðu stelpurnar í gær. Síðasti leikur fyrri umferðar Inkasso er næsta föstudag en þá fara stelpurnar á Skagann og spila við mesta varnarlið deildarinnar. Lið ÍA hefur aðeins fengið á sig sex mörk í sumar en reyndar aðeins skorað níu mörk. Það verður því áhugavert að sjá hvað gerist þegar þessi ólíku lið leiða saman hesta sína.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir