Breiðhyltingar sökkuðu í Síkinu

Pétur flýgur framhjá Sigga Þorsteins. MYND: HJALTI ÁRNA
Pétur flýgur framhjá Sigga Þorsteins. MYND: HJALTI ÁRNA

ÍR-ingar hafa síðustu misserin mætt grjótharðir í Síkið og verið til tómra vandræða fyrir Tindastólsmenn. Það var því reiknað með hörkuleik þegar Breiðhyltingar komu í heimsókn í 8. umferð Dominos-deildarinnar í gærkvöldi. Eftir jafnan leik brutu Stólarnir mótstöðu ÍR niður í öðrum leikhluta og sögðu síðan „bless“ í byrjun síðari hálfleiks. Það lá við að stuðningsmenn Tindastóls væru farnir að vorkenna gestunum og þá er nú langt gengið. Lokatölur voru 92-51.

Liðin skiptust á körfum í byrjun leiks og fór P.B. Alawoya ágætlega af stað með Stólunum í fjarveru Urald King. Lið Tindastóls var yfir 19-17 að loknum fyrsta leikhluta og fátt benti til annars en boðið yrði upp á jafnan og spennandi leik. Fimm stig í röð frá Danero Thomas breyttu stöðunni í 27-19 og þá ákvað Borce, þjálfari ÍR,  að taka leikhlé. Það dugði skammt því skömmu síðar setti Brynjar Þór sinn annan þrist í leiknum og munurinn tíu stig, 32-22. Sæþór Kristjáns svaraði fyrir ÍR með fyrri þristi þeirra í leiknum (!), 32-25, en í næstu sókn sýndi Hannes Ingi óvænt tilþrif með boltann og þá þótti Israel Martin rétt að taka leikhlé og halda eldræðu þar sem hann, í stuttu en kröftugu máli, heimtaði einbeitingu og að menn sínir gerðu það sem ætlast væri til af þeim. Ef ætlun Martins var að trekkja upp Tindastólsliðið þá gekk það rækilega upp því nú reykspóluðu Stólar um víðan völl og komust ÍR-ingar hvorki lönd né strönd. Vörn Stólanna skellti í lás og ekki var það til að bæta stöðu gestanna að sóknarleikur heimamanna gekk nú eins og smurð vél. Staðan í hálfleik 44-27.

Það var ljóst að ef ÍR-ingar ætluðu sér eitthvað í leiknum yrðu þeir að koma sterkari til leiks í síðari hálfleik. Þeirra helsti höfðingi, Justin Martin, sem gerði 45 stig gegn Val í umferðinni á undan, hafði einungis gert fimm stig í fyrri hálfleik og hann þurfti að rísa upp. Sem hann gerði ekki því hann skoraði ekki stig í síðari hálfleik. Eftir tæplega fjögurra mínútna leik í þriðja leikhluta höfðu Stólarnir bætt við 17 stigum en lið ÍR tveimur. Hvað eftir annað voru gestirnir rændir boltanum og fengu þriggja stiga þrumu í andlitið. Þegar Brilli var búinn að kasta niður fjórum þristum á fyrstu fimm mínútum síðari hálfleiks þá ákvað Martin að taka hann út af og voru gestirnir honum örugglega þakklátir í fyrstu. Það bætti ekki stöðu ÍR að Dino Butorac gerði í kjölfarið átta stig á rétt rúmri mínútu og nú var orðinn meira en helmings munur á liðunum. Staðan 72-35. 

Eftir þetta var svo sem fátt um fína drætti en kannski helst það að Helgi Margeirs fann körfuna, Pétur endaði stórfínan leik stigahæstur með 22 stig og Friðrik fór út af og settist á bekkinn þegar hann hélt hann væri kominn með fimm villur. Aldrei þessu vant höfðu dómarar leiksins ekki dæmt á hann og kom hann því aftur til leiks. Og hélt upp á það með því að fá sína fimmtu villu örfáum sekúndum síðar. Klassi.

Tölfræði á vef KKÍ >

Það var ansi dapurt að sjá ÍR-inga svona heillum horfna. Þeir hafa nú leikið án leikstjórnanda síns, Matta Sig, í mánuð eða svo og hafa verið upp og ofan í leikjum sínum. Hákon Hjálmars hefur stýrt leik liðsins í fjarveru Matta með miklum ágætum en í gær lenti hann á vegg. Kappinn var reyndar næst stigahæstur ÍR-inga með ellefu stig en hann tapaði boltanum átta sinnum og spiluðu Stólarnir hörku vörn á hann. Siggi Þorsteins var nánast eini Breiðhyltingurinn sem stóð í lappirnar í gær og Hellisbúarnir sem fylgdu ÍR-liðinu voru töluvert sprækari en flestir liðsmanna gestanna.

Heildar framlag ÍR liðsins voru 37 punktar í leiknum en Stólarnir voru með 120 punkta. Pétur átti flottan leik og gerði 22 stig, átti sex stoðsendingar og  tók fimm fráköst. Brynjar Þór gerði 20 stig á 20 mínútum, Dino var með 16 stig, Alawoya 13 sstig og 13 fráköst og Danero 12 stig og 11 fráköst. Það eina sem var neikvætt í gær var að það komu ekki mörg stig af bekknum en það er ekki hægt að setja út á framlag Tindastólsmanna sem spiluðu vörnina af fítonskrafti. Viðar gerði til dæmis ekkert stig í gær en ÍR-ingar hefðu örugglega verið sáttari hefði hann bara verið heima hjá sér.

Lið Tindastóls er sem fyrr á toppi Dominos-deildarinnar. Nú verður tveggja vikna landsleikjahlé á deildinni en síðan eiga strákarnir útileik gegn liði Breiðabliks.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir