Dramatískur sigur Tindastóls á Akranesi

Murielle Tiernan skoraði bæði mörk Tindastóls. MYND:ÓAB
Murielle Tiernan skoraði bæði mörk Tindastóls. MYND:ÓAB

Í kvöld fór fram leikur ÍA og Tindastóls í Inkasso deild kvenna á Akranesvelli. Leikurinn bauð upp á mörg færi, mörk og rautt spjald. Tindastóll átti gjörsamlega fyrri hálfleikinn en heimastúlkur þann seinni. Þrátt fyrir að ÍA áttu seinni hálfleikinn þá náði Tindastóll að skora tvö mörk og vinna leikinn 2-1.

Í byrjun leiks fékk Tindastóll aukaspyrnu sem Jacqueline tók, boltinn barst til Mur sem skoraði af stuttu færi en markið var dæmt af vegna rangstöðu. Á 34. mínútu komst Mur í gott færi en Aníta Ólafsdóttir markvörður ÍA varði virkilega vel. Mínútu síðar sendi Vigdís Edda góða fyrirgjöf á Jacqueline sem náði ágætis skoti sem fór rétt framhjá. Markalaust í hálfleik.

Skagastúlkur voru miklu grimmari í seinni hálfleik, meðan það var ekkert að frétta hjá Stólunum og ekki lagaðist staða Tindastóls þegar María Dögg fékk að líta rauða spjaldið á 58. mínútu eftir að hafa tekið einn leikmann ÍA niður og sparkað í hana í kjölfarið. Skagastúlkur voru þá einum manni fleiri seinasta hálftímann og uppskáru mark á 82. mínútu þegar Erla Karitas Jóhannesdóttir lagði boltann inn eftir tvær góðar markvörslur frá Lauren. Allt virtist stefna í ósigur Tindastóls en á 89. mínútu fékk Tindastóll hornspyrnu sem Jacqueline tók boltinn barst á Mur sem skoraði af stuttu færi. Það stefndi allt í jafntefli en á síðustu sekúndunni kom sigurmark Tindastóls þegar Mur skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu frá Jacqueline sama uppskrift og í fyrsta markinu og lokatölur 2-1 fyrir Tindastól.

Maður leiksins MURIELLE TIERNAN frábær leikmaður.

Tindastóll heldur því þriðja sætinu með 18 stig og er aðeins þrem stigum á eftir Þrótti R. Næsti leikur hjá Tindastól er á móti Haukum og verður leikurinn spilaður á Sauðárkróksvelli, föstudaginn 26.júlí klukkan 19:15.

/EÍG

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir