Eitt núll fyrir Tindastól!

Stólarnir fagna sætum sigri í leikslok í kvöld. Santiago markvörður stekkur upp á liðsfélaga sína. MYND: ÓAB
Stólarnir fagna sætum sigri í leikslok í kvöld. Santiago markvörður stekkur upp á liðsfélaga sína. MYND: ÓAB

Það var gríðarlega mikilvægur leikur í fallbaráttu 2. deildar karla í knattspyrnu á Króknum í kvöld. Þar leiddu saman gæðinga sína lið Tindastóls og Hattar frá Egilsstöðum. Með sigri gátu Stólarnir rennt sér upp að hlið Hattar í deildinni en ósigur eða jafntefli hefði gert alvarlega stöðu enn erfiðari og því er óhætt að fullyrða að sigurmark Stefan Lamanna í uppbótartíma hafi heldur betur glatt Tindastólsmenn. Lokatölur voru 1-0.

Það var þungbúið á Króknum í kvöld, rigndi örlítið af og til en vindur svo gott sem enginn og því kjöraðstæður. Gestirnir voru betri í fyrri hálfleik, þeim gekk betur að setja saman sóknir og náðu á köflum upp ágætu spili en þeim gekk engu að síður illa að skapa sér nokkur færi. Stólarnir fundu engan takt og það voru helst sprettir frá Lamanna sem glöddu augað og þá átti Jón Gísli nokkrar fínar spyrnur fyrir mark gestanna en Stólarnir voru ekki að ná í skottið á þeim. 

Það var augljóst að þjálfarateymið hefur farið ágætlega yfir málin í leikhléi því Tindastólsmenn komu flugbeittir til leiks í síðari hálfleik og strax í byrjun átti Benni skot í stöng og í kjölfarið vörðu gestirnir á línu. Fyrsta stundarfjórðinginn voru Stólarnir betri en gestirnir, náðu að spila boltanum betur, en síðasta hálftímann var leikurinn í járnum. Á 82. mínútu lentu Hólmar Skúla og Daníel Kjartansson í návígi sem lauk með því að Daníel keyrði Hólmar niður utan vallar og ekkert annað en rautt spjald virtist vera í stöðunni. Dómari leiksins gugnaði á því rauða og sýndi kappanum gult. Aðeins mínútu síðar vildu Tindastólsmenn fá víti þegar boltinn fór í höndina á leikmanni Hattar en það varð ekki til að auka vinsældir dómarans að hann ákvað að dæma ekkert. 

Eftir þetta virtist leikurinn stefna í markalaust jafntefli því nokkuð var dregið af mönnum. En á 92. mínútu, í uppbótartíma, reyndu Hattarmenn að byggja upp spil á vallarhelmingi heimamanna en Tindastólsmenn komust inn í þversendingu rétt við miðjuhring og áttu frábæra sendingu inn fyrir háa vörn Hattar og það var enginn að fara ná Lamanna þegar hann kom siglandi inn í svæðið, tók boltann með sér og inn á vítateig þar sem hann afgreiddi boltann af öryggi framhjá Marinkovic markmanni Hattar og í markið. Stólarnir héldu út lokamínútur uppbótartíma án vandkvæða og fögnuðu glaðir góðum sigri.

Þetta var kaflaskiptur leikur hjá liði Tindastóls en þeir vörðu markið og vítateiginn vel og gestirnir fengu ekki mörg færi í leiknum. Leikmenn voru duglegir og börðust eins og ljón og sigurinn svo sannarlega sætur. Stólarnir eru enn í fallsæti en eru með 14 stig líkt og lið Hattar en lakari markatölu. Þar fyrir ofan er lið Leiknis Fáskrúðsfirði með 16 stig og þá Víðir með 17 stig. Huginn Seyðisfirði er eftir sem áður á botninum en nú með 9 stig. Næsti leikur Tindastóls er á Ísafirði, gegn Vestra, næstkomandi laugardag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir