Ekki tókst að mynda stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls

Fráfarandi stjórn kattspyrnudeildar Tindastóls. Frá vinstri: Indriði Þór Einarsson, Guðmundur Helgi Loftsson, Ásta Björg Pálmadóttir, Helga Dóra Lúðvíksdóttir, Þórhallur Rúnar Rúnarsson og Einarína Einarsdóttir, formaður unglingaráðs. Mynd: PF.
Fráfarandi stjórn kattspyrnudeildar Tindastóls. Frá vinstri: Indriði Þór Einarsson, Guðmundur Helgi Loftsson, Ásta Björg Pálmadóttir, Helga Dóra Lúðvíksdóttir, Þórhallur Rúnar Rúnarsson og Einarína Einarsdóttir, formaður unglingaráðs. Mynd: PF.

Framhaldsaðalfundur knattspyrnudeildar Tindastóls fór fram í gærkvöldi án þess að næðist að mynda nýja stjórn eins og vonast hafði verið eftir en leit hefur staðið að frambærilegum stjórnarmönnum frá aðalfundi 14. nóvember sl. Þrír úr fráfarandi stjórn og unglingaráði munu mynda bráðabirgðastjórn þangað til nýtt fólk fæst í verkið.

Eins og kunnugt er gaf fráfarandi stjórn deildarinnar ekki kost á áframhaldandi setu en enginn gaf kost á sér á aðalfundi sem haldinn var um miðjan nóvember. Hefur leit staðið yfir og nokkur nöfn verið nefnd í því sambandi. Nokkurrar bjartsýni gætti fyrir skömmu þegar talið var að nokkrir aðilar væru tilbúnir að taka að sér stjórnarsetu en útséð var með það í gær.

Fór svo að tveir úr fráfarandi stjórn, Þórhallur Rúnar Rúnarsson og Guðmundur Helgi Loftsson og Einarína Einarsdóttir, form. unglingaráðs, ákváðu að starfa í bráðabirgðastjórn þangað til búið verður að finna fólk sem er tilbúið að gefa sig í stjórnarstörfin. Þá gaf Guðbjörg Óskarsdóttir kost á sér til setu í unglingaráði.

Áhyggjur fundarmanna leyndu sér ekki með framtíð deildarinnar og má segja að neyðarkall hafi verið gefið út þar sem ljóst er að deildin mun ekki starfa stjórnarlaus. Eru allir sem hugsanlega eru tilbúnir til að koma að starfi knattspyrnudeildar beðnir um að hafa samband við einhvern fyrrnefndan stjórnarmann.

Tengd frétt: Leitað að fólki til að manna stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir