Leitað að fólki til að manna stjórn knattspyrnudeildar Tindastóls

Enginn bauð sig fram til stjórnarsetu á aðalfundi knattspyrnudeildar Tindastóls sem fram fór í Húsi frítímans í gærkvöldi og var því boðað til framhaldsaðalfundar síðar eftir að aðrir dagskrárliðir höfðu verið afgreiddir. Mikill viðsnúningur í rekstri deildarinnar.

Mikill viðsnúningur varð í rekstri félagsins milli ára þar sem mikil vinna hafði farið í að koma skuldastöðu félagsins í viðunandi horf. Frá taprekstri ársins 2018 skilaði rekstur félagsins í ár 13 milljóna hagnaði. Uppgjörsárið var þó styttra þetta tímabil þar sem því hefur verið breytt en áður skipti um áramót en héðan í frá verður það frá 1. október til 20. september. Uppgjör 2019 nær því yfir níu mánuði eða frá áramótum til loka september og því erfitt að bera saman suma liði milli ára. 

Fram kom á fundinum að farið var í nauðasamninga við lánadrottna sem skýrir að mestu bætta skuldastöðu félagsins.
Í reikningum deildarinnar má sjá að aðgangseyrir á leiki sumarsins jókst um 12 hundruð þúsund frá fyrra ári og tekjur af Landsbankamóti jukust um 100% milli ára.

Barna- og unglingaráð knattspyrnudeildar Tindastóls var formlega hleypt af stokkunum sumarið 2019 þótt það hafi starfað síðan um veturinn 2018. Í stjórn þess sitja Einarína Einarsdóttir, Sigþrúður Jóna Harðardóttir, Guðmundur Helgi Gíslason og Íris Ósk Elefsen. 
Jamie McDonough var ráðinn yfirþjálfari yngri flokka og mun hann stýra allri uppbyggingu og þjálfun deildarinnar.

Enginn úr stjórn deildarinnar gaf kost á áframhaldandi setu og sömu sögu er að segja af fundargestum, enginn var tilbúinn í slaginn. Var því samþykkt að fresta aðalfundi þar til viðunandi lausn hefur fundist. Verður framhaldsaðalfundur auglýstur síðar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir