Engin vonbrigði varðandi viðhorf og viðleitni strákanna

Dom þjálfari Furness steig dansinn með Stólunum í sumar. MYND: ÓAB
Dom þjálfari Furness steig dansinn með Stólunum í sumar. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls spilaði síðasta leik sinn í 4. deildinni þetta sumarið s. fimmtudag en þá heimsóttu strákarnir lið KÁ á Ásvelli í Hafnarfirði. Ljóst var fyrir leikinn að Stólarnir myndu enda keppni í fjórða sæti hvernig svo sem leikir síðustu umferðar færu. Heimamenn komust yfir strax í byrjun og enduðu á að vinna leikinn 4-2.

Lið KÁ var komið í 2-0 eftir hálftíma leik en Jónas Aron lagaði stöðun á 34. mínútu en heimamenn bættu við marki fyrir hlé og staðan þá 3-1. Þeir gerðu fjórða markið á 52. mínútu en Max Selden átti síðasta orðið á 72. mínútu og lokatölur því 4-2. Það voru Vængir Júpíters og KFK sem tryggðu sér sæti í 3. deildinni. Feykir lagði nokkrar spurningar fyrir Dominick Furness, þjálfara Tindastóls, nú um helgina.

Eru úrslit sumarsins vonbrigði að þínu mati eða eðlileg miðað við styrkleika liðsins? „Við gáfum allt sem við áttum; strákarnir lögðu svo mikið á sig allt undirbúningstímabilið og yfir keppnistímabilið. Það eru vissulega vonbrigði að við náðum ekki markmiði okkar um að komast upp um deild en það eru engin vonbrigði varðandi viðhorf og viðleitni allra strákanna, þeir voru fullkomlega staðfastir og skildu allt eftir á vellinum. Við vorum mjög óheppnir í mörgum aðstæðum á þessu tímabili en svona er fótboltinn, svona er lífið; við verðum að rífa okkur upp aftur og horfa fram á við.“

Hvað fannst þér vanta hjá liði Tindastóls svo liðið næði takmarki sínu - að komast upp um deild? „Í fyrsta lagi voru gæði fótboltans sem við spiluðum óviðjafnanleg í þessari deild – sem ég er ótrúlega stoltur af því strákarnir þurfa hugrekki til og eru hugrakkir að spila svona skemmtilegan og fjörugan fótbolta. Það þarf karakter til að geta leikið eins og við lékum, það er ekki auðvelt. En strákarnir voru allir með í þessu og við bættum okkur smám saman allt tímabilið. Bættum okkur ekki aðeins í tæknilegum og taktískum þáttum leiks okkar, heldur með karakternum og þeirri trú sem við sýndum sem hópur. Enn eru mörg atriði sem við þurfum að bæta í okkar leik en við tókum vissulega nokkur risastór skref í rétta átt.“

Hvað varstu ánægður með í sumar? „Ég hef elskað hverja mínútu alveg frá fyrstu æfingum í snjóstormunum í febrúar til þeirra hæða og lægða sem fylgja hverju knattspyrnutímabili. Þetta stendur allt og fellur með þessum hópi stráka sem ég hef unnið með. Krafturinn í þeim, viðhorfið og eldmóðurinn gladdi mig á hverjum degi.“

Var 4. deildin sterkari en þú bjóst við? „Hin nýja 4. deild var mjög sterk í ár, hver leikur hafði sínar áskoranir. Það kæmi mér ekki á óvart ef liðin sem komust upp kepptu aftur um að komast upp um deild að ári. Nú höfum við góða innsýn í það sem þarf að gera fyrir næsta tímabil og bæta úr til að ná markmiðum okkar.“

Skemmtirðu þér vel í sumar sem spilandi þjálfari og markamaskína? „Sumarið hefur verið frábært. Ég hafði gaman af þessu öllu saman; æfingum, leikjunum og auðvitað tímanum með strákunum. Það fylgja því vissulega áskoranir að þurfa að þjálfa, stjórna og leiða hópinn auk þess að undirbúa sig líkamlega fyrir leikina en þetta hefur verið áskorun sem ég hef gefið mig heilshugar í – að gefa allt sem ég á til liðsins. Nú skil ég ástæðuna fyrir því að Vincent Company lýsti því sem einu erfiðasta sem hann hefur þurft að gera! Nú höfum við allir áunnið okkur gott frí, svo komum við aftur til leiks fullir af orku, spenntir fyrir næsta skrefi! Við höfum vaxið svo mikið sem hópur, það er mikilvægt að við höldum saman og höldum áfram að byggja á grunni alls þess frábæra sem við höfum byggt upp hingað til,“ segir Dom að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir