Erfið lokahelgi frábærs tímabils hjá stelpunum

Birgitta þýtur framhjá andstæðingi sínum.
Birgitta þýtur framhjá andstæðingi sínum.

Norðvesturúrvalið í 3. og 2. flokki (Tindastóll, Hvöt, Kormákur og Fram) spilaði síðustu leiki sína þetta sumarið nú um helgina. Fyrst mættu stelpurnar í 2. flokki sameinuðu liði Þórs/KA/Völsungs 2 í leik þar sem spilað var um sæti í A-deild og höfðu gestirnir betur, 3-5. Í dag spilaði síðan 3. flokkur gegn liði FH/ÍH en sá leikur endaði 0-6 og gestirnir tryggðu sér þar með Íslandsmeistaratitilinn í 3. flokki.

Það vantaði nokkrar sterka pósta í 2. flokkinn í gær og munaði um minna. Það hefur verið mikið álag á stelpunum enda hefur þurft að hreinsa upp þá leiki sem frestuðust fyrr í sumar nú á lokametrunum. Það var þannig ekki nema tveir dagar síðan liðið lék í Hafnarfirði. Þær virkuðu því nokkuð þungar fyrstu mínútur leiksins. Það var hin 13 ára Bríet Fjóla sem gerði tvö eins mörk með mínútu millibili, á 8. og 9. mínútu, og kom gestunum í góða stöðu. Í bæði skiptin kom hún sér í þægilega stöðu og skaut hátt á markið og Margrét átti engan séns í markinu. Eyvör Páls minnkaði muninn á 23. mínútu en mínútu síðar var Bríet búin að kvitta fyrir gestina. Tanía Sól gerði fjórða mark þeirra á 38. mínútu. Staðan því erfið í hálfleik en flest komu mörkin eftir hik í varnarleiknum þar sem gestirnir fengu of mikinn tíma með boltann.

Það opnaðist líflína fyrir heimastúlkur þegar Saga Ísey slapp í gegn og var tekin niður af markmanni gestanna sem fékk að líta rauða spjaldið fyrir vikið. Þrátt fyrir linnulitla sókna Norðvesturúrvalsins gekk illa að skora og það voru gestirnir sem gerðu fimmta mark sitt á 70. mínútu. Saga Ísey minnkaði muninn tveimur mínútum síðar eftir góðan undirbúning Birgittu og í uppbótartíma nældi Eyvör í víti sem Elísa skoraði úr. Lokatölur 3-5 og stelpurnar okkar því áfram í B-deild í 2. flokki kvenna en þær hafa verið stórskemmtilegar í sumar en náðu því miður ekki toppleik í gær.

Þriðji flokkur kvenna lauk tímabilinu í A-riðli en spilaðar voru þrjár lotur í sumar. A-riðillinn reyndist fullstór biti fyrir Norðvesturúrvalið sem tapaði öllum sjö leikjum sínum nú seinni part sumars. Þær lentu ansi oft í því að lenda nokkrum mörkum undir snemma leiks en gáfust ekki upp og gerðu hvað þær gátu til að vinna sig inn í leikina á ný. Þetta átti til dæmis við um útileiki gegn Þrótti (9-4), Þór/KA (6-3) og Stjörnuna/Álftanes (6-3). Átta lið voru í riðlinum og það var sem fyrr segir lið FH/ÍH, sem endaði í efsta sæti með 18 stig, sem vann 0-6 á Króknum í dag.

Engu að síður frábært sumar hjá stelpunum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir