Fjórar Stólastúlkur í liði ársins í Lengjudeildinni

Stólastúlkur fagna. MYND: ÓAB
Stólastúlkur fagna. MYND: ÓAB

Nú á laugardaginn kynnti Fótbolti.net valið á liði ársins í Lengjudeild kvenna en það voru þjálfarar og fyrirliðar liðanna í deildinni sem völdu úrvalslið tímabilsins og kom ekki á óvart að liðskonur í Tindastóli voru áberandi. Fjórar þeirra, Laufey Harpa, Bryndís Rut, Mur og Jackie, voru í liði ársins, Amber og María Dögg komust á bekkinn og síðan urðu þjálfarar Tindastóls,Guðni Þór Einarsson og Jón Stefán Jónsson, hlutskarpastir í vali á þjálfurum ársins.

Murielle Tiernan var valin leikmaður ársins en hún gerði 25 mörk í sumar og hefur gert 77 mörk með liði Tindastóls í 53 leikjum tímabilin 2018, 2019 og 2020. Í frétta Fótbolta.nets kemur fram að öll tímabilin sem Mur hefur spilað með liði Tindastóls hún verið markahæst í sinni deild og fengið öll möguleg atkvæði í lið ársins og sem leikmaður ársins. Þrjú ár í röð! Það verður spennandi að fylgjast með henni í Pepsi Max deildinni næsta sumar.

Vegna valsins á þjálfurum ársins segir: „Þeir Guðni Þór og Jón Stefán voru að ljúka sínu þriðja tímabili sem þjálfarar Tindastóls og tókst að stýra liðinu upp um tvær deildir á þeim tíma. Á fyrsta tímabili sínu með liðið vann Tindastóll 2. deild og í fyrra gerði liðið harða atlögu að því að komast upp um deild. Í ár náðist svo sögulegur árangur en Tindastóll sigraði Lengjudeildina sannfærandi og mun því leika í efstu deild að ári, í fyrsta skipti í sögu félagsins.“ 

Annars var lið ársins 2020, sem spilar leikkerfið 4-3-3, á þessa leið:

Chante Sherese Sandiford - Haukar 

Laufey Harpa Halldórsdóttir - Tindastóll 
Celine Rumpf - Keflavík 
Bryndís Rut Haraldsdóttir - Tindastóll 
Mikaela Nótt Pétursdóttir - Haukar 

Jacqueline Altschuld - Tindastóll 
Natasha Anasi - Keflavík 
Sæunn Björnsdóttir - Haukar 

Murielle Tiernan - Tindastóll 
Paula Isabelle Germino Watnick - Keflavík 
Vienna Behnke - Haukar

Varamenn: 

Amber Kristen Michel - Tindastóll 
María Dögg Jóhannsdóttir - Tindastóll 
Sunna Líf Þorbjörnsdóttir - Haukar 
Taylor Lynne Bennett - Afturelding 
Sesselja Líf Valgeirsdóttir - Afturelding 
Nadía Atladóttir - Víkingur 
Þórhildur Þórhallsdóttir - Augnablik 

Ein Stólastúlka til viðbótar fékk atkvæði í valinu en það var sóknarleikmaðurinn Hugrún Pálsdóttir. 

Feykir óskar stúlkunum og þjálfurunum til hamingju með heiðurinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir