Flengdir í fýluferð til Fjarðabyggðar

Stólarnir voru grátt leiknir fyrir austan. Þessi mynd er frá fyrri viðureign liðanna á Króknum í sumar. MYND: ÓAB
Stólarnir voru grátt leiknir fyrir austan. Þessi mynd er frá fyrri viðureign liðanna á Króknum í sumar. MYND: ÓAB

Tindastólsmenn héldu austur á Reyðarfjörð um helgina þar sem þeir mættu liði Leiknis frá Fáskrúðsfirði. Leikið var í Fjarðabyggðarhöllinni og var um gríðarlega mikilvægan leik að ræða fyrir bæði lið í fallbaráttu 2. deildar. Ljóst var fyrir leikinn að sökum fjölda leikbanna og meiðsla mátti ekki mikið út af bregða hjá okkar mönnum. Því miður fór allt á versta veg og uppskeran flenging í boði Fáskrúðsfirðinga. Lokatölur 8-0.

Í gær voru Jón Gísli, Arnar Skúli, Jónas Óla Óla og Arnar Ólafs í banni ásamt Santiago markmanni auk þess sem Hólmar Skúla var meiddur. Undir þessum kringumstæðum féll það í hlut varamarkmannsins unga, Atla Dags, að verja mark Tindastóls og var pabbi hans, Stefán Vagn, varamarkvörður að þessu sinni. 

Ljóst var að Stólarnir þyrftu að verja mark sitt vel og vera vel skipulagðir líkt og í leiknum gegn Vestra í umferðinni á undan. Það gekk ekki eftir því Leiknismenn komust yfir strax á 12. mínútu með marki frá Povilas Krasnovskis. Á 44. mínútu bætti Arkadiusz Jan Grzelak við öðru marki og síðan fengu Stólarnir framan í sig kalda vatnsgusu þegar Darius Jankauskas kom heimamönnum í 3-0 á annarri mínútu uppbótartíma fyrri hálfleiks og gerði þá nánast út um leikinn. 

Dagur Ingi Valsson gerði tvö mörk á fyrstu tveimur mínútum síðari hálfleiks og hjólin farin undan Stólarútunni. Dagur fullkomnaði þrennuna á 66. mínútu og á lokakafla leiksins bættu Manuel Sanchez Galiana og Guðmundur Arnar Hjálmarsson við sitt hvoru markinu.

Er með alvöru íþróttamenn í höndunum

Á sama tíma og Stólarnir voru grátt leiknir fyrir austan gerði lið Hattar frá Egilsstöðum jafntefli við Kára á Skaganum. Höttur var 0-2 yfir í hálfleik en Kári jafnaði en þetta eina stig dugði til að koma Hetti upp fyrir Stólana í stigatöflunni, með sama stigafjölda en talsvert hagstæðari markatölu. 

Feykir hafði samband við Bjarka Má Árnason, spilandi þjálfara Tindastóls, og spurði hanni út í Leiknis-leikinn og framhaldið: „Í leiknum [...] fór flest úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis og var þetta mjög lélegur leikur af okkar hálfu. En þetta eru bara þrjú töpuð stig og ætlum við ekki að dvelja lengur við þennan leik heldur horfa fram á veginn og bæta okkur og læra af þessum leik. Framundan eru þrír hörkuleikir þar sem við þurfum að berjast fyrir lífi okkar í deildinni. Þar sem ég veit að ég er með alvöru íþróttamenn í höndunum þá munu strákarnir sýna sitt rétta andlit í næsta leik gegn Fjarðabyggð á laugardaginn kemur,“ sagði Bjarki.

Þrjár umferðir eru eftir í 2. deildinni en næstkomandi laugardag kemur Fjarðabyggð í heimsókn á Krókinn. Síðan eiga Stólarnir leik á Seyðisfirði við botnlið Hugins og loks koma Völsungar í heimsókn í síðustu umferð. Það er langt frá því að öll von sé úti en ljóst að Tindastólsmenn þurfa að halda vel á spilunum til að halda sæti sínu í deildinni.

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir