Frábær endurkoma Stólastúlkna gegn liði Njarðvíkur

Tess í baráttunni. Hún gerði sér lítið fyrir og skoraði 48 stig í leiknum. MYND: HJALTI ÁRNA
Tess í baráttunni. Hún gerði sér lítið fyrir og skoraði 48 stig í leiknum. MYND: HJALTI ÁRNA

Það var heldur betur boðið upp á dramatík í Síkinu þegar Tindastóll og Njarðvík mættust nú á laugardaginn í 1. deild kvenna. Lið Njarðvíkur hafði náð sextán stiga forystu fyrir hlé og allt leit út fyrir að gestirnir tækju stigin tvö með sér heim án verulegra vandræða. Eitthvað fínerí hefur Arnoldas boðið Stólastúlkum upp á í hálfleik því þær komu tvíefldar til leiks í þeim seinni með Tess Williams í hrikalegu stuði og komu leiknum í framlengingu. Eftir líflega og æsispennandi framlengingu fagnaði lið Tindastóls frábærum sigri. Lokatölur 97-93.

Lið Tindastóls hefur tekið talsverðum breytingum frá því í haust þegar liðið var kynnt til leiks í Stólnum, kynningarblaði Kkd. Tindastóls. Þannig léku nú þær Erna Rut Kristjánsdóttir (CrossFit- og lögreglukona), Karen Lilja Owolabi, Fanney Lind Thomas (síðast í liði Skallagríms) og Valdís Ósk Óladóttir (komin heim eftir tíma hjá Stjörnunni) stórar rullur í liði Tindastóls sem þýðir að hópurinn er breiðari og sterkari. 

Leikurinn fór ágætlega af stað, liðin skiptust á um að hafa forystuna fyrstu átta mínúturnar en þá setti varnarleikur Njarðvíkinga Stólastúlkurnar út af laginu og gestirnir náðu góðu áhlaupi og voru níu stigum yfir, 13-22, að loknum fyrsta leikhluta. Þær Njarðvísku héldu áfram að auka muninn framan af öðrum leikhluta en lið Tindastóls fór aðeins að bíta betur frá sér þegar leið að hálfleik, þá kviknaði loks á Tess Wiliams sem hafði lítið látið ljós sitt skína fram að því. Hún gerði sjö stig í röð undir lok hálfleiksins en lið Tindastóls fékk þrist í andlitið rétt fyrir lok hálfleiksins og Njarðvíkingar leiddu með 16 stigum í hálfleik. Staðan 30-46.

Tindastólsliðið kom grjóthart til leiks í síðari hálfleik og eftir aðeins þriggja mínútna leik höfðu stelpurnar náð að minnka muninn í fimm stig, staðan 41-46. Nú var Tess hreinlega óstöðvandi en með henni áttu Marín Lind og Eva Rún fínan leik í sókninni. Þegar fjórði leikhluti hófst var lið Njarðvíkur fimm stigum yfir, 56-61, en Valdís Ósk kom liði Tindastóls yfir, í fyrsta sinn síðan snemma í fyrsta leikhluta, þegar rúmar fimm mínútur voru eftir. Heimastúlkur héldu forystunni í fáeinar mínútur en þá kom góður kafli gestanna þar sem Vilborg Jónsdóttir setti þrist og Kamilla Sól Viktorsdóttir skoraði úr tveimur vítum og staðan 73-77 og rúmar tvær mínútur eftir. Nú var baráttan í algleymingi en lið Tindastóls varð að feta ansi fína línu í vörninni því nánast allt byrjunarliðið var komið með fjórar villur. Þegar mínúta var eftir var staðan 75-78 og þegar hálf mínúta lifði setti Marín ísköld niður tvö víti. Júlía Scheving svaraði með tveimur vítaskotum á hinum endanum. Arnoldas tók leikhlé og niðurstaðan virtist kerfi þar sem Eva Rún fékk galopið skot fyrir utan 3ja stiga línuna sem hún setti taugalaus beint í. Staðan jöfn, 80-80, og fjórar sekúndur eftir. Gestirnir tóku leikhlé en þær náðu ekki að koma skoti á körfuna áður en leiktíminn rann út og því var framlengt.

Framlenginguna átti Tess síðan með húð og hári. Hún hafði gert 33 stig í venjulegum leiktíma og það var alveg ljóst að hún ætlaði ekki að tapa þessum leik því hún bætti 15 stigum við og endaði leikinn með 48 stig og níu fráköst. Hún tók tólf vítaskot í leiknum og setti öll niður. Frramlengingin var æsispennandi og hraðinn mikill. Tess keyrði hvað eftir annað inn undir körfu Njarðvíkinga sem endaði yfirleitt með því að hún skoraði eða fékk víti. Þegar upp var staðið vann lið Tindastóls framlenginguna 17-13 og leikinn því sem fyrr segir 97-93.

Sigurinn var ansi sætur en lið Njarðvíkur hafði unnið fyrri leik liðanna 88-70. Að venju notaði Arnoldas alla leikmenn sína sem sannarlega er ánægjulegt að sjá en að þessu sinni mæddi mest á Tess (48 stig/9 frk), Evu Rún (12/6), Ernu Rut (4/7), Marín Lind (20/6), Karen Lilju (3/5) og Rakel Rós (5/3). Njarðvík vann frákastabaráttuna en munurinn var ekki eins mikill nú (45/52) og í mörgum öðrum leikjum Tindastóls í vetur þar sem skort hefur hæð í liðið.

Tölfræði á vef KKÍ >

Síkið er augljóslega sterkur heimavöllur fyrir stelpurnar, rétt eins og strákana, og stemningin verið mögnuð. Næstu leikir Stólastúlkna eru einmitt í Síkinu og næstkomandi laugardag kemur lið Þórs á Akureyri í heimsókn en lið Þórs hefur verið ólseigt í vetur, hafa spilað sjö leiki og unnið fimm á meðan lið Tindastóls hefur spilað ellefu leiki og unnið fjóra. Það þarf að hjálpa stelpunum að laga þessa tölfræði aðeins í baráttunni um Norðurlandið á laugardag. Áfram Tindastóll!

Frábærar myndir frá Hjalta Árna >

Horfa á leikinn á Tindastóll TV >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir