Frábær fjórði leikhluti Stólanna færði liðinu sigur gegn ÍR

Pétur Rúnar í leik gegn meisturum Vals milli jóla og nýárs. Hann var bestu í liði Tindastóls í gær þegar liðið mætti ÍR. MYND: HJALTI ÁRNA
Pétur Rúnar í leik gegn meisturum Vals milli jóla og nýárs. Hann var bestu í liði Tindastóls í gær þegar liðið mætti ÍR. MYND: HJALTI ÁRNA

Subway-deildin í körfunni fór í gang á ný í gærkvöldi eftir örlítið bikarhlé. Tindastólsmenn héldu suður í Breiðholt þar sem stigaþyrstir ÍR-ingar biðu þeirra í Skógarselinu. Það má alltaf reikna með hörkuleik þegar Stólarnir sækja ÍR heim og það varð engin breyting á því í gær, mikið jafnræði með liðunum þar til í fjórða leikhluta að gestirnir sýndu hvað í þeim býr og þeir rúlluðu norður með stigin tvö og kampakátan nýjan þjálfara, Pavel Ermolinskij. Lokatölur 81-96 og Stólarnir stukku þar með upp í fimmta sæti.

Heimamenn fóru betur af stað í gær en Pétur kom sínum mönnum yfir í fyrsta sinn í leiknum þegar hann setti niður fyrsta þristinn sinn af fjórum og staðan 10-11. Stólarnir höfðu síðan frumkvæðið út fyrsta leikhlutann og staðan 17-21 að honum loknum. Gott var að sjá að stigin dreifðust á margar hendur. Áfram héldu gestirnir að auka muninn í upphafi annars leikhluta, Zoran skellti í þrist og íleggja frá Keyshawn á 14. mínútu kom Stólunum í níu stiga forystu, 22-31. Hann kom sínum mönnum í tíu stiga forystu,27-37, þegar þrjár mínútur voru fram að hléi en þá kom Slæmur kafli Stólanna (til heiðurs íslenska handboltalandsliðinu) og Breiðhyltingar skelltu í 13-0 kafla á tveimur mínútum og komust yfir. Keyshawn kom Stólunum á blað með tveimur körfum og staðan 42-41 í hálfleik fyrir heimamenn.

Þriðji leikhluti var fjörugur og liðin skiptust á um að eiga góða kafla. Þristur frá Pétri kom Stólunum í fimm stiga forystu, 51-56, þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum en mínútu síðar voru ÍR ingar komnir yfir og svona gekk þetta. Allt var hnífjafnt, staðan 65-65, þegar fjórði leikhluti hófst og fyrsta karfan í honum kom ekki fyrr en tæpar tvær mínútur voru liðnar. Þá skellti Arnar í þrist og í kjölfarið fylgdu körfur frá Sigga, Tai, Pétri og Ragga og staðan skyndilega orðin 65-77 og ÍR-liðið í slæmum málum. Frábær kafli Stólanna þar sem allt gekk upp og það er skemmst frá því að segja að heimamenn náðu aldrei að klóra í bakkann síðustu mínúturnar og Tindastólsmenn fögnuðu mikilvægum sigri fyrir framan fjölmennt og fjörugt stuðningsmannalið sitt.

Pétur Rúnar var bestur á vellinum í gær og skilaði 20 stigum, sjö fráköstum og sex stoðsendingum. Kappinn klikkaði aðeins á einu skoti í leiknum, setti niður fimm af sex skotum og öll sex vítin sín. Taiwo og Keyshawn voru báðir með 16 stig, Arnar 14 og Dungilas 13 en hann tók níu fráköst í leiknum. Þá fékk Siggi loks ágæta spilatíma og skilaði sjö stigum í hús en aðrir minna. Í liði ÍR var Massarelli stigahæstur með 21 stig en Ragnar Braga skilaði 14 á meðan Colin Pryor var með níu stig og ellefu fráköst.

Stólarnir fóru illa með heimamenn í frákastabaráttunni sem þeir unnu 51/29. Enn voru Stólarnir í basli utan 3ja stiga línunnar en þar bjargaði frammistaða Péturs (4/5) talsverðu.

Með sigrinum skutust Stólarnir upp í fimmta sæti með 14 stig en næstkomandi fimmtudag mæta þeir liði Njarðvíkinga. Valsmenn tróna á toppi deildarinnar með 20 stig en Keflavík, Njarðvík og Haukar eru öll með 18 stig. Ef Tindastólsmenn ætla sér heimavallarrétt í úrslitakeppninni þá þurfa þeir að fara að hala inn stig gegn liðunum fyrir ofan þá í deildinni. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir