Góður fjögurra mínútna kafli Meistaranna dugði ekki til

Tindastólsmenn heimsóttu Þorlákshöfn í kvöld í Subwaydeildinni. Ekki varð ferðin til fjár því Þórsarar voru sprækir sem lækir og léku á alsoddi megnið af leiknum. Átján stigum munaði í hálfleik en Stólarnir bitu frá sér í þriðja leikhluta. minnkuðu muninn í sex stig en þá settu heimamenn í rallýgírinn og sendu Íslandsmeisturunum fingurkoss um leið og þeir spóluðu yfir þá. Lokatölur 96-79 og Stólarnir því enn með tíu stig að loknum níu umferðum.

Nýr leikmaður Stólanna, Calloway, var ekki kominn með leikheimild en eitthvað vesen er að fá samþykkt félagaskipti í Kósóvó. Hann var engu að síður mættur í Ísvatnshöllina suður með sjó og því vonandi stutt í að kappinn renni sér í þá rústrauðu. Það var hins vegar ánægjulegt að sjá Davis Geks mættan til leiks á ný eftir meiðsli.

Þórsarar byrjuðu leikinn af krafti, komust í 14-7 en Pétur minnkaði bilið í fjögur stig með þristi og Drungilas minnkaði síðan muninn í tvö stig og staðan 16-14. Þá kom 10-0 kafli hjá heimamönnum og 13 stigum munaði að loknum fyrsta leikhluta. Staðan 29-16. Stólunum tókst að hægja örlítið á Þórsurum í öðrum leikhluta en sóknarleikurinn gekk brösuglega enda spiluðu Þórsarar góða vörn. Staðan í hálfleik var 52-34 og útlitið dökkt hjá Meisturunum.

Tómas Valur kom heimamönnum í 22 stiga forystu, 68-46, þegar rúmlega fjórar mínútur voru eftir af þriðja leikhluta og þá var eins og Stólunum væri pínu misboðið. Þeir náðu 17-1 kafla og munurinn því aðeins sex stig þegar fjórði leikhluti hófst, 69-63. Mikið hefur mætt á helstu kempum Tindastóls í gegnum meiðslaþrautagöngu síðustu vikna og það virtist sem þeir hefðu klárað benzínið á þessum prýðilega kafla og Þórsarar gengu á lagið á ný og lönduðu öflugum átján stiga sigri.

Drungilas var stigahæstur í liði Tindastóls með 17 stig og hann hirti níu fráköst. Lawson var með 14 stig, Tóti 13, Pétur 9, Geks 7, Hannes og Orri sex hvor, Raggi fjögur og sjö fráköst og Veigar setti einn þrist. Pavel þjálfari Ermolinski var ekki sáttur við leik sinna manna en reiknaði með að það mætti draga lærdóm af slæmu tapi.

Það er því bara þetta gamla góða áfram gakk og næst eru það sprækir kappar í liði Hattar sem mæta í Síkið. Það verður eitthvað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir