Húnvetningar enduðu 4. deildina með sigurleik

Riðlakeppni 4. deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu lauk um helgina og á Blönduósvelli tók sameinað lið Kormáks/Hvatar á móti liðsmönnum Ungmennafélagsins Geisla úr Aðaldal. Ljóst var fyrir leikinn að Kormákur/Hvöt átti ekki möguleika á sæti í úrslitakeppni 4. deiildar eftir tap gegn ÍH í umferðinni á undan en þeir mættu að sjálfsögðu stoltir til leiks og báru sigurorð af Þingeyingunum úr Aðaldal. Lokatölur 3-1.

Það var Sigurður Bjarni Aadnegard sem náði forystunni fyrir heimamenn á 14. mínútu og þannig var staðan í hléi. Hilmar Þór Kárason var snöggur að breikka bilið í síðari hálfleik með marki á 46. mínútu en á 53. mínútu klóraði Hreggviður Heiðberg Gunnarsson í bakkann fyrir lið Geisla. Daníel Örn Baldvinsson varð síðan fyrir því óláni að skora í eigið mark og tryggði liði Kormáks/Hvatar því 3-1 sigur.

Sigurinn tryggði Húnvetningum þriðja sætið í D-riðli 4. deildar en þar spiluðu 12 leiki í sumar og fengu úr þeim 19 stig; fimm leikir unnust, þrír töpuðust en strákarnir gerðu fjögur jafntefli sem reyndust dýrkeypt þegar upp var staðið. Það voru lið Kórdrengja (25 stig) og ÍH (23 stig) sem urðu í efstu tveimur sætum riðilsins og þau taka þátt í átta liða úrslitakeppni 4. deildar sem hefst um næstu helgi. Að þessu sinni fara þrjú lið upp í 3. deild þar sem fjölga á um tvö lið í deildinni.

Áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir