Hvað er að gerast hérna!?! – Stórsýning í boði Brilla

Brynjar Þór Björnsson. MYND: GUNNHILDUR GÍSLA
Brynjar Þór Björnsson. MYND: GUNNHILDUR GÍSLA

Blikar buðu Brilla og félögum í Tindastóli upp í dans í Smáranum í gærkvöldi í frekar sérstökum körfuboltaleik. Samkvæmt Pétri Ingvarssyni þjálfara Breiðabliks ætlar hann að láta lið sitt spila svæðisvörn í vetur og það gerðu þeir svo sannarlega. Hún var reyndar ekki góð og gaf Tindastólsmönnum opin færi nánast allan leikinn. Þetta virtist Brynjari Þór Björnssyni þykja hin besta skemmtun því hann tók sig til og setti splunkunýtt Íslandsmet í 3ja stiga skotum – setti niður 16 þrista og virtist njóta sín nokkuð vel. Lokatölur voru 82-117 fyrir Tindastól sem situr sem fyrr á toppi Dominos-deildarinnar með jafn mörg stig og Njarðvík.

Brynjar klúðraði fyrsta 3ja stiga skoti sínu eftir 11 sekúndna leik en Stólarnir náðu frákastinu og Brilli fékk enn opnara færi og hamraði niður fyrsta þristi kvöldsins. Danero fylgdi þessu eftir með tveimur þristum og síðan tók Brynjar við á ný. Kópavogskempurnar gerðu sitt besta til að halda í við Stólana í þessari sýningu en vörn Tindastóls var skínandi fín í fyrri hálfleik þannig að heimamenn, sem kláruðu sóknir sínar hratt en með misjöfnum árangri, sáu Stólana fljótlega hverfa úr augsýn. Brynjar var kominn með fimm þrista áður en fimm mínútur voru liðnar og bætti þeim sjötta við undir lok fyrsta leikhluta en þá var staðan orðin 18-33 fyrir Tindastól. Hann bætti við þremur þristum á 90 sekúndna kafla í öðrum leikhluta og á þessum kafla setti hann niður tvo þrista í hverjum þremur tilraunum. Hann kláraði fyrri hálfleik með 33 stig, ellefu þrista og hafði enn ekki tekið skot innan teigs (ef frá er talið eitt víti sem hann klikkaði á) – hann átti ekki eftir að skjóta einu einasta skoti í leiknum innan 3ja stiga línunnar! Staðan 28-57 í hálfleik.

Síðari hálfleikur hófst að sjálfsögðu með þristi frá Brilla en síðan kólnaði skothöndin aðeins og Thomas og Alawoya tóku við keflinu. Leikurinn jafnaðist heldur í síðari hálfleik en munurinn yfirleitt á bilinu 30-40 stig Stólunum í hag. Varnarleikur Tindastóls varð heldur kæruleysislegri en framan af leik og heimamenn hirtu nokkra brauðmola undir körfu Stólanna sem alla jafna hefðu ekki verið í boði. Pétur og Helgi Margeirs skráðu nöfn sín í 3ja stiga dálkinn undir lok þriðja leikhluta og Hannes Ingi bætti við tveimur silkimjúkum í upphafi fjórða leikhluta. Þegar þarna var komið sögu var búið að geyma Brynjar á bekknum í dágóða stund en menn virtust vera spenntir fyrir því að hann reyndi við Íslandsmetið í þristum og hann kom til leiks á ný þegar sex mínútur voru eftir. Hann tók sér aftur einhverjar 90 sekúndur í að bæta við þremur þristum og var því kominn með 15 þrista og hvarf fljótlega af velli við dynjandi lófaklapp.

Þá kom upp skondið atvik því ofan úr stúku rölti nú tölfræðigúrú íslensks körfubolta, Varmhlíðingurinn Rúnar Birgir, og bar bekk Stólanna þær fregnir að Frank nokkur Booker hefði einnig sett 15 þrista í leik (reyndar tveimur í röð) á síðustu öld. Þetta væri því bara metjöfnun. Svo Brilli var sendur inn á völlinn á ný við mikinn fögnuð áhorfenda. Nú reyndar tóku Blikar upp á því að spila vörn á kappann þannig að hann þurfti þrjár tilraunir til áður en metið var slegið. Hann endaði semsagt með 16 3ja stiga körfur í 31 tilraun. Klikkuð frammistaða.

Þó það hafi nú stundum litið þannig út þá var Brilli ekki alveg einn á vellinum. Lið Tindastóls spilaði á köflum flottan körfubolta, boltinn gekk hratt og vel í sókninni þannig að liðið uppskar opin færi. Hraður leikur Blikanna varð líka til þess að boltinn gekk hratt karfa á milli. Alls tóku liðin 99 3ja stiga skot í leiknum og þar af tóku Stólarnir 60, settu 26 niður og nýtingin því 43%. Brynjar Þór var eðlilega stigahæstur með 48 stig, Danero Thomas var með 20 stig, Alawoya 19 stig, 11 fráköst og fimm stolna bolta og Pétur var með 13 stoðsendingar. Blikar áttu ágæta spretti en voru verulega óagaðir og óskynsamir í sínum leik. Atkvæðamestu þeirra var Jure Gunjina með 18 stig og hann tók 13 fráköst.

Tölfræði af vef KKÍ > 

Næsti leikur Tindastóls er hér heima á fimmtudaginn en þá kemur lið Skallagríms úr Borgarnesi í heimsókn. Sunnudaginn 16. desember spila Stólarnir síðan bikarleik hér heima gegn 1. deildar liði Fjölnis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir