Hvorki gengur né rekur hjá Tindastólsmönnum

Úr leik Tindastóls og Þróttar frá því fyrr í sumar. Sá leikur endaði með 2-2 jafntefli. MYND: ÓAB
Úr leik Tindastóls og Þróttar frá því fyrr í sumar. Sá leikur endaði með 2-2 jafntefli. MYND: ÓAB

Lið Þróttar úr Vogum og Tindastóls mættust á Vogaídýfu-vellinum í Vogum í gær í leik sem fara átti fram sl. sunnudag en var frestað vegna áætlaðs óveðurs. Staða Stólanna í 2. deildinni hefur versnað upp á síðkastið í kjölfar þess að liðið vinnur ekki leiki á meðan lið Kára hefur vaknað til lífsins. Tap í Vogunum í gær gerði stöðu Tindstóls nánast algjörlega vonlausa en lokatölur voru 2-0 fyrir Þrótt.

Það var Gilles Daniel Mbang Ondo sem kom heimamönnum yfir á 32. mínútu og staðan 1-0 í hálfleik. Heldur vænkaðist staða Tindastóls þegar Ingvar Ásbjörn Ingarsson, leikmaður Þróttar, fékk að líta rauða spjaldið hjá dómaranum er um 25 mínútur voru til leiksloka en því miður náðu strákarnir ekki að nýta sér liðsmuninn. Þeir fengu síðan mark í andlitið undir lok leiksins þegar Andri Hrafn Sigurðsson gerði annað mark Þróttar.

Liði Tindastóls hefur ekki tekist að ná í nægilega mörg stig í síðustu umferðum þrátt fyrir að sýna á köflum meira sannfærandi leik en framan af sumri. Liðið er aðeins með níu stig eftir átján leiki eða 0,5 stig að meðaltali í leik – sem er auðvitað alveg ömurlegt. KFG er næst fyrir ofan Tindastól í 11. sæti með 15 stig en Kári frá Akranesi er með 21 stig í 10. sæti. Með því að sigra alla leikina sem eftir eru geta Stólarnir nælt í 12 stig og jafnað Kára að stigum en ... kannski er bara best að vera raunsær og viðurkenna að það þarf eitthvað meira en venjulegt kraftaverk (!) til að Stólarnir haldi sæti sínu í deildinni. 

Næsti leikur Tindastóls er á Króknum næstkomandi laugardag kl. 16 en þá mætir lið Selfoss í heimsókn. Selfyssingar eru í þriðja sæti 2. deildar og eru að berjast um sæti í Inkasso-deildinni við lið Leiknis Fáskrúðsfirði og Vestra frá Ísafirði. Nú er bara að Stólarnir mæti stoltir til leiks með kassann úti og sýni hvers þeir eru megnugir. Það er ekki beðið um annað. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir