Ismael með tvö á Grenivík og eitt stig til Húnvetninga

Húnvetningar fagna jöfnunarmarkinu á 91. mínútu. SKJÁSKOT AF YOUTUBE
Húnvetningar fagna jöfnunarmarkinu á 91. mínútu. SKJÁSKOT AF YOUTUBE

Lið Kormáks/Hvatar færðist risastóru hænuskrefi nær 2. deildinni í dag þegar enn eitt markið í uppbótartíma færði liðinu eitt stig á erfiðum útivelli á Grenivík. Ismael Moussa gerði bæði mörk liðsins í dag og er nú orðinn markahæstur í 3. deild með 17 mörk og heldur betur búinn að vera drjúgur í sumar. Lokatölur á Grenivík 2-2 eftir að staðan í hálfleik var 2-1 fyrir Magna.

Nú er ein umferð eftir óspiluð og eiga Húnvetningar heimaleik gegn Augnablikum nk. laugardag. Þeir eru með þriggja stiga forskot á Árbæ sem er eina liðið sem á möguleika á að ná þeim að stigum. Kormákur/Hvöt er með 19 mörk í plús en lið Árbæjar 15. Árbæingar sækja topplið Reynis heim í Sandgerði en Sandgerðingar hafa þegar tryggt sér sigurinn í deildinni. Það er því ekki öll spenna úti ennþá og útlit fyrir spennuþrungna stórveislu á Blönduósi um næstu helgi.

Aadnigardinn var enn í marki Húnvetninga í dag og hann kom engum vörnum við þegar Halldór Einarsson náði að skalla góða sendingu í markið eftir 18 mínútna leik. Tveimur mínútum síðar jafnaði Isamel fyrir gestina, fékk góða sendingu inn á vítateigslínu, fór framhjá markverðinum og fíflaði síðan nokkra Grenvíkinga áður en hann lyfti boltanum í markið. Maður með sjálfstraust. Á 31. mínútu kom Steinar Logi Þórðarson Magna á ný yfir með góðum skalla á fjær eftir hornspyrnu.

Það fækkaði í liði heimamanna á 89. mínútu þegar Tómas Arnarson fékk annað gula spjaldið sitt og tveimur mínútum síðar slapp Ismael inn fyrir vörn Magna og slúttaði af fádæma öryggi. Mínútu síðar fækkaði enn í liði heimamanna þegar Kristinn Rósbergsson skellti sér í galna tæklingu og virtist nú ekki gera miklar athugasemdir við að hafa fengið að líta sitt annað gula spjald. Það sem eftir lifði reyndu gestirnir að næla í sigurmark tveimur fleiri en það hafðist ekki.

Nú er bara að gíra sig upp í leik gegn Kópavogspiltum. Það má reikna með fjölmenni á Blönduósvelli. Koma svo – áfram Kormákur/Hvöt!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir