Jæja, hversu gaman var þetta?

Barist um boltann. MYND: HJALTI ÁRNA
Barist um boltann. MYND: HJALTI ÁRNA

Það var ekkert steindautt stórmeistarajafntefli í Síkinu í gærkvöldi þegar Tindastólsmenn tóku á móti vinum sínum úr Vesturbænum. Gestirnir í KR fóru vel af stað en smá saman drógu Stólarnir þá inn og úr varð alvöru bardagi þar sem leikmenn grýttu sér á lausa bolta og jaxlar voru bruddir eins og bismark-brjóstsykur. Það skemmdi síðan ekki fyrir að sigurinn féll með okkar mönnum eftir hálfgert þrátefli síðustu mínútuna sem er sennilega ein sú lengsta og æsilegasta sem leikin hefur verið í Síkinu og er þó um ágætt úrval að ræða. Lokatölur 80-76 fyrir Tindastól.

Liðin mættu til leiks með úrvalssveit gæðinga. Leikmenn KR flestir hoknir af reynslu en þeir voru þó beinir í baki og baráttuglaðir í Síkinu. Brilli okkar hóf leik fyrir KR í banastuði og áður en fimm mínútur voru liðnar var hann búinn að smella niður fjórum þristum fyrir gestina og virtist vera að hugsa um að slá Íslandsmetið sitt í þristafleytingum. Gestirnir virtust raunar í ofurhetjuham utan 3ja stiga línunnar því þegar Brilli var loks stöðvaður þá tóku bara Jón Arnór, Helgi Magg, Matti og Kobbi við keflinu og það virtist nánast allt fara niður hjá þeim. Baldur tók leikhlé í stöðunni 9-17 og þulan var á þann veg að Stólarnir áttu að halda áfram að verjast samkvæmt því skipulagi sem lagt var upp með – bara framkvæma það betur. Gestirnir náðu tólf stiga forystu, 12-24, en þá nennti Helgi Rafn ekkert þessu norpi lengur og fór fyrir sínum mönnum sem náðu loks að vinda varnarvélina í gang og stöðva sóknarleik KR. Staðan 20-25 að loknum fyrsta leikhluta og suðan að koma upp í Síkinu.

Fyrstu mínútur leiksins höfðu einkennst af sóknarfráköstum KR og 3ja stiga skotum í kjölfar þeirra. Stólarnir skrúfuðu fyrir þessa vitleysu í öðrum leikhluta. Simmons og Geiger voru báðir að skila sínu en þeir skiptu mínútunum á milli sín eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Það var pínu bras á Bilic, Brodnik og Perkovic í sóknarleiknum en það átti eftir að lagast í síðari hálfleik. Gestirnir komust í 22-33 snemma í öðrum leikhluta eftir hrikalegt hollí-hú frá Acox en Helgi Rafn jafnaði leikinn með víti, 36-36, eftir að dæmd var óíþróttamannsleg villa á Dino Cinac fyrir að slá Helga í hausinn. Geiger sá svo til þess að Stólarnir leiddu í leikhléi, 40-39.

Þriðji leikhlutinn var jafn og spennandi. KR-ingar höfðu að mestu haldið Bilic og Brodnik frá körfunni í fyrri hálfleik en nú komu þeir betur inn í sóknarleikinn. Um miðjan hálfleikinn stal Brodnik boltanum, óð upp völlinn og tróð með tilþrifum eftir að hafa snúið á varnarmenn KR með glæsilegum galdratöktum. Hann tróð aftur í næstu sókn eftir að hafa hirt sóknarfrákast og skyndilega voru Stólarnir komnir með sjö stiga forskot, staðan 56-49. Tveimur mínútum síðar var allt orðið jafnt á ný og eftir að Brilli fiskaði óíþróttamannslega villu á Helga Rafn þá voru KR-ingar komnir yfir, 58-61. Vesturbæingar voru fjórum stigum yfir að loknum þriðja leikhluta, 60-64, eftir að hafa unnið þriðja leikhluta 20-25, líkt og fyrsta leikhluta leiksins.

Baldur hvatti sína menn til að gefa allt í fjórða leikhluta og sýna sinn allra besta varnarleik. Strákarnir komu til leiks og gerðu nákvæmlega það sem hann bað um því í lokafjórðungnum, sem var hrikalega spennandi, gerðu gestirnir aðeins tólf stig. Raunar var varnarleikur beggja liða algjörlega til fyrirmyndar og þegar sex mínútur rúmar voru liðnar lagði Kristófer Acox boltann í körfu Stólanna og staðan þá 65-68. Craion hafði gert fyrri körfu KR en Geiger sett niður stökkskot og Bilic þrjú víti fyrir Tindastól. Brodnik minnkaði muninn með troðslu, Jakob setti þrist fyrir KR, 67-71, en Bilic svaraði í sömu mynt og loks eftir misheppnað skot KR kom Geiger Stólunum yfir, 72-71. Næstu sóknir beggja liða skiluðu ekki körfum en það var risa augnablik í leiknum þegar hálf mínúta var eftir en þá hirti Perkovic sóknarfrákast eftir að Acox varði skot Geigers og stóri maðurinn skilaði boltanum í körfuna. 74-71. Gestirnir tóku leikhlé og réðu ráðum sínum og voru snöggir að minnka muninn. Þeir hófu síðan þann leik að reyna að stela boltanum af heimamönnum eða brjóta snögglega á þeim til að gefa sér færi á að tryggja sér sigurinn á síðustu 30 sekúndunum. Leikmönnum Tindastóls gekk hins vegar betur að setja vítin niður en KR-ingum að setja niður skot sín og það var því ekki laust við Síkið fagnaði innilega þegar sigurinn var í húsi eftir hreint magnaðan baráttuleik. Lokatölur 80-76 og Stólarnir í þriðja sæti Dominos-deildarinnar með forskot á Íslandsmeistara KR og betri innbyrðisstöðu eftir tvö góða sigra á Vesturbæingunum.

Bæði lið sýndu mikinn karakter í leiknum og liðsheild beggja liða var í fyrirrúmi. Stigahæstu menn skoruðu aðeins 16 stig en stigadreifingin var góð. Baráttan um fráköstin var ansi jöfn (43/40) en á meðan Stólarnir skoruðu meira innan teigs þá leituðu gestirnir ítrekað út fyrir 3ja stiga línu en þar kólnuðu þeir talsvert eftir því sem á leikinn leið. Í síðari hálfleik náði lið Tindastóls að sækja betur inn í teig en í þeim fyrri og reyndist það mikilvægt. 

Geiger og Bilic voru báðir með 16 stig fyrir Stólana en Bilic hirti átta fráköst líkt og Perkovic. Pétur skilaði 14 stigum, Helgi Rafn og Brodnik gerðu tíu hvor, Simmons sjö, Perkovic fjögur og Viðar þrjú. Stólunum gekk best þegar Viðar var á gólfinu (+14) en kappinn meiddist undir lok leiksins. Í liði KR var Brynjar Þór stigahæstur með 16 stig, Jón Arnór og Craion boru báðir með ellefu en atkvæðamestur var Kristófer Acox með níu stig og tólf fráköst.

Fyrir þá sem hafa gaman af tölfræði þá má geta þess að leikurinn fór fram 02.02.2020 og Stólarnir gerður 20 stig í öllum leikhlutunum. Gaman að segja frá því!

Það er skammt stórra högga á milli hjá liði Tindastóls því á fimmtudag spila strákarnir við Hauka sem eru, líkt og lið Tindastóls, í 3.-4. sæti Dominos-deildarinnar með 22 stig. Leikurinn er því gríðarlega mikilvægur í baráttunni um heimaleikjarétt í úrslitakeppninni. Viku síðar bíða síðan Garðbæingar í Laugardalshöllinni þar sem liðin mætast í undanúrslitum Geysis-bikarsins. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir