Jafntefli hjá Stólastúlkum og Keflvíkingum í hörkuleik

Jackie í baráttunni inni á miðjunni en hún gerði jöfnunarmark Stólastúlkna í kvöld. MYND: ÓAB
Jackie í baráttunni inni á miðjunni en hún gerði jöfnunarmark Stólastúlkna í kvöld. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls og Keflavíkur mættust í hörkuslag í kvöld á gervigrasinu á Króknum. Lið gestanna féll úr efstu deild í fyrra og fyrir mót var þeim spáð öruggum sigri í Lengjudeildinni í sumar en Stólastúlkum var spáð þriðja sæti. Það var því um stórleik að ræða og bæði lið reyndu hvað þau gátu til að knýja fram sigurmark allt fram á síðustu sekúndu en leikurinn endaði með sanngjörnu jafntefli, lokatölur 1-1.

Áður en leikurinn hófst var Hugrúnu Páls færður blómvöndur en hún spilaði í kvöld 100. leik sinn fyrir Tindastól. Leikurinn fór fjörlega af stað í pínu norðangalsa en það lægði þegar á leið. Hugrún fékk fysta dauðafærið þegar hún fékk boltann óvænt á fjærstöng og skellti boltanum í stöngina. Á 15. mínútu náðu Keflvíkingar góðri sókn sem endaði með því að boltanum var stungið laglega inn fyrir á Paulu Watnick sem komst fram hjá Amber Michel í marki Tindastóls og lagði boltann í markið. Gestirnir voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náðu á tíðum upp ágætu spili. Þær voru snöggar að loka á Mur í framlínu Tindastóls þannig að hún hafði úr litlu að moða. 

Staðan var 0-1 í hálfleik en Stólastúlkur komu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik og náðu að ógna marki gestanna. Hugrún og Aldís María náðu að teygja betur á vörn gestanna og skapa hættu en það gekk illa að finna Mur í fæturna. Jöfnunarmarkið kom á 63. mínútu eftir að Aldís María tapaði boltanum í teig Keflavíkur mistókst gestunum að koma boltanum frá, Laufey vann boltann og sendi fyrir markið, Ásta Vigdís í markinu náði ekki að góma boltann sem barst til Hugrúnar sem sendi boltann aftur í Ástu og af henni hrökk hann til Jackie Altschuld sem skoraði af yfirvegun. 

Næstu mínútur var jafnræði með liðunum en síðustu mínútur leiksins sóttu gestirnir heldur meira en bæði lið gerðu ágætar tilraunir til að stela stigunum. Stöðva þurfti leikinn undir lokin eftir að Amber og Natasha Anasi lentu í samstuði en ágætur dómari leiksins lét réttilega köll um vítaspyrnu sem vind um eyru þjóta.

Niðurstaðan því jafntefli sem eru sennilega ásættanleg úrslit fyrir bæði lið þegar upp er staðið. Amber var frábær í markinu og virðast Stólarnir hafa krækt í hörku markvörð. Hún gerði allt óaðfinnanlega. Fyrir framan hana náðu Bryndís Rut og Hallgerður vel saman og studdar af Laufeyju Hörpu og Kristrúnu þá náðu þær að verjast vel snörpum og liprum sóknarleikmönnum Keflavíkur. Það var pínu basl á stelpunum inni á miðjunni sem skiljanlegt er. Jackie náði þó að komast betur inn í leikinn eftir því sem leið á. Mur átti erfitt uppdráttar í leiknum en Aldís María og Hugrún efldust eftir því sem leið á. Stúlkurnar sem komu inn á skiluðu sínu vel.

Um 350 áhorfendur voru á leiknum í kvöld og ekki oft sem slíkt gerist á fótboltaleik hér. Steinullarmótið í knattspyrnu fer fram á Króknum um helgina og fjölmargir Keflvíkingar á svæðinu sem studdu sínar stelpur vel – mun betur en frekar hógværir Króksarar í stúkunni. Næsti leikur Stólastúlkna er gegn liði Víkings í Reykjavík þann 3. júlí. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir