Kæru Tindastóls vegna leiks við Þór Akureyri hafnað

Tindastóll kærði á dögunum framkvæmd leiks liðsins gegn liði Þórs Akureyri en Þór vann þann naglbít í 1. deild kvenna.. Framkvæmd leiksins þótti ekki til eftirbreytni og í kærunni fór lið Tindastóls fram á að verða dæmdur sigur í leiknum og til vara að leikurinn yrði spilaður á ný. Þórsarar kröfðust þess á móti að kröfum Stólanna yrði hafnað og varð það niðurstaða aga- og úrskurðarnefndar KKÍ. 

Meðal þess sem Tindastóll taldi hafa farið úrskeiðis var að ungt og óreynt fólk sá um að stjórna leikklukku og rita leikskýrslu. Mistök voru gerð þannig að villur voru mistaldar þannig að leikmaður sem ekki var kominn með fimm villur var útilokaður frá leiknum og þá voru vítaskot tekin af Stólunum þegar liðið átti að vera komið með skotrétt. Þetta eru atriði sem skipta að sjálfsögðu máli í jöfnum leikjum. Þórsarar töldu lýsingu Stólanna á málsatvikum ósanngjarna og villandi og lýsingu á atburðum einhliða sett fram af kæranda. 

Í niðurstöðu nefndarinnar segir m.a.: „Í ákvæði 1. og 2. málsl. 7. gr. reglugerðar um körfuknattleiksmót segir að félög beri ábyrgð á að framkvæmd heimaleikja þeirra fari fram á eðlilegan hátt. Félög sem vanrækja umsjón með heimaleik, þannig að leikur fari ekki fram, tapi þeim leik. Umræddur leikur fór fram og því á 2. málsl. ákvæðisins ekki við í þessu tilviki ... Það er mat aga-og úrskurðarnefndar að framkvæmd hins kærða leiks var ekki með eðlilegu móti. Stiga- og villutalningu var áfátt og ljóst að allavega einn leikmaður kæranda var útilokaður frá þátttöku án þess að hafa brotið af sér nægilega oft. Hins vegar er ekki um að ræða mjög alvarleg mistök né hefur verið sýnt fram að þau hafi með beinum hætti leitt til rangra úrslita. Er því kröfum kæranda í máli þessu hafnað.“

Sjá dóm aga- og úrskurðarnefndar KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir