Könurnar að koma á Krókinn!

Jackie og Mur skrifuðu undir samning við Tindastóls sl. haust. AÐSEND MYND
Jackie og Mur skrifuðu undir samning við Tindastóls sl. haust. AÐSEND MYND

Það var mikil stemning í kringum kvennafótboltann hjá Tindastóli síðastliðið sumar, liðið var í raun hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í efstu deild, og stefnan er sett hátt í sumar. Tindastóll hafði fyrir nokkru samið við þrjár bandarískar stúlkur og þrátt fyrir undarlegt ástand í heiminum og vandamál með að ferðast milli landa þá eru, samkvæmt heimildum Feykis, góðar líkur á því að þær Mur, Jackie og Amber komi til landsins nú um helgina.

Í gær var beðið eftir svari frá utanríkisráðuneytinu hvort þær fengju að koma til landsins nú strax og var það leyfi veitt. Stelpurnar sem mæta á Krókinn frá Bandaríkjunum hefja Íslandsdvölina á því að fara í sóttkví eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Markamaskínan sterka, Murielle Tiernan, spilar með liði Tindastóls þriðja sumarið í röð en hún hefur hefur skorað 52 mörk fyrir Stólana í 35 leikjum. Þá kemur Jackie Altshuld á Krókinn en hún lék með liðinu síðasta sumar og gerði níu mörk í 15 leikjum. Amber Michel kemur með þeim stöllum en hún á að verja mark Stólanna í sumar.

Fram kom í spjalli Feykis við Rúnar Rúnarsson, formann knattspyrnudeildar Tindastóls, að Tindastóll sé að skoða nýja leikmenn og er þá um að ræða liðsstyrk í þær stöður þar sem kvarnast hefur úr hópnum frá í fyrra. Þær sem hafa yfirgefið lið Tindastóls eru þær Laufey Harpa sem spilar í sumar með liði Þórs/KA, Vigdís Edda gekk til liðs við Breiðablik og Kolbrún Ósk lagði skóna á hilluna. Þá verður Guðrún Jenný ekki með í sumar, er ólétt en er hvergi nærri hætt. 

Feykir heyrði einnig í Guðna Þór Einarssyni, þjálfara kvennaliðsins, og spurði hvort æfingar væru að hefjast hjá mfl. kvenna og hvernig undirbúningi hafi verið háttað síðustu vikur. „Reglur um æfingabann hefur verið í gildi hjá Almannavörnum sem útilokar allar skipulagðar æfingar með þjálfara. Við höfum eins og allir fylgt þeim tilmælum í einu og öllu,“ segir Guðni. „Við þjálfarar settum upp hlaupa- og styrktarplan sem þær hafa verið virkilega duglegar að fylgja eftir. Fyrir knattspyrnukonur sem eru vanar að æfa í hópi og með bolta eru auðvitað mikil viðbrigði að þurfa allt í einu að æfa einar í nokkrar vikur. Það hefur reynt mikið á sjálfsaga leikmannanna og hugarfar þeirra hefur verið algjörlega til fyrirmyndar. Á mánudaginn næsta megum við svo hefja æfingar í sjö manna hópum á hálfum velli og þeir hópar mega ekki blandast. Áfram verður í gildi 2 metra reglan, sem þýðir að hefðbundnar æfingar byrja ekki strax, en það er mikill munur að geta hist og sparkað aðeins í bolta.“ 

Er vitað hvenær keppni hefst? „KSI hefur gefið út að áætlað sé að hefja bikarkeppnina í byrjun júní og Íslandsmótið 18.-20. júní.“

Hvernig leggst sumarið í þig? „Sumarið leggst rosalega vel í mig. Í fyrra tókst okkur aðeins að bragða á að vera í toppbaráttu og sú reynsla verður okkur afar dýrmæt í sumar. Í okkar hópi eru virkilega frambærilegar knattspyrnukonur og ef við höldum rétt á spilunum og með góðum stuðningi þá eru okkur flestir vegir færir. Ég vil skora á alla að vera duglegir að kíkja á völlinn í sumar og hvetja meistaraflokkana okkar áfram,“ segir Guðni að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir