Leiða tölvuleikjaspilara saman

Hjörtur Ragnar Atlason, varaformaður og Ingi Sigþór Gunnarsson, formaður. Mynd: PF.
Hjörtur Ragnar Atlason, varaformaður og Ingi Sigþór Gunnarsson, formaður. Mynd: PF.

Stofnuð hefur verið rafíþróttadeild innan Tindastóls sem þegar er farin að keppa á mótum en markmiðið er að hefja eiginlega starfsemi með sumarkomunni. „Hlökkum til framtíðarinnar,“ segja þeir Ingi Sigþór Gunnarsson, formaður, Hjörtur Ragnar Atlason, varaformaður og Gunnar Ásgrímsson, gjaldkeri, á Facebooksíðu deildarinnar. 

„Okkur fannst að það væri góð hugmynd að byrja að keppa undir nafninu sem fyrst og hvetja krakka sem og foreldra til að fylgjast með og sjá hversu skemmtilegt þetta er. Þetta er ekki bara leikur. Eftir að hafa séð að íþróttafélög á höfuðborgarsvæðinu væru að stofna rafíþróttadeildir, þá töldum við félagarnir, sem sitja nú í stjórn deildarinnar, að Tindastóll yrði að vera með í þessari skemmtilegu uppbyggingu sem á sér stað akkúrat núna.“

Þeir segja að krakkar og unglingar nú til dags spili mikið af tölvuleikjum og eigi það jafnvel til að að loka sig inni marga klukkutíma á dag. „Margir krakkar leita einnig oft í tölvuleiki þegar eitthvað gengur á í lífi þeirra, þeir eiga erfitt með að tala við annað fólk eða líður illa á sálinni og geta gleymt sér í sínum eigin heimi. Krakkar myndu fá tækifæri til að spila með jafnöldrum sínum sem deila þessu áhugamáli og þannig opna sig betur, spjallað við annað fólk og eignast fleiri vini.

Okkar hugmynd er að einhvers konar hreyfing yrði innifalin, og að þetta verði unnið í samstarfi við frístundamiðstöðvar,“ segja þeir drengir og fullyrða að ekki verði eingöngu setið allan daginn fyrir framan tölvuna. „Iðkendur deildarinnar myndu æfa saman í hópum í eigin persónu og æfa þar samskipti, samvinnu, samkennd, sjálfsaga og fleira, á sama tíma fá þeir að leggja stund á áhugamálið sitt.“

Sjá Facebook-síðu deildarinnar HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir