Lið ÍR tók völdin í síðari hálfleik

Marín Lind og Birna Eiríks berjast undir körfu ÍR. MYND: HJALTI ÁRNA
Marín Lind og Birna Eiríks berjast undir körfu ÍR. MYND: HJALTI ÁRNA

Lið Tindastóls og ÍR mættust í 1. deild kvenna síðastliðinn laugardag í Síkinu. Þetta var í þriðja skiptið sem liðin mættust í vetur og höfðu þau unnið sitt hvorn leikinn. Heimastúlkur fóru vel af stað í leiknum og leiddu með tólf stigum í hálfleik en gestirnir úr Breiðholtinu komu ákveðnir til leiks í síðari hálfleiks og náðu með góðum leik að snúa taflinu við og unnu sætan sigur. Lokatölur 65-74.

Lið ÍR komst í 2-6 snemma leiks en þristar frá Kristínu Höllu og Marín Lind komu Stólunum á beinu brautina. Þristur frá Valdísi Ósk kom heimastúlkum í 15-8 þegar fyrsti leikhluti var rúmlega hálfnaður. Lið ÍR minnkaði muninn í 19-16 en annar þristur frá Valdísi gaf Stólastúlkum sex stiga forystu, 22-16, áður en fyrsti leikhluti var úti. Marín Lind tók yfir í Síkinu í öðrum leikhluta og gerði margar körfur af harðfylgi eftir gegnumbrot. Lið ÍR einbeitti sér að því að koma í veg fyrir að Tess Williams fengi frí skot en voru viljugri að hleypa henni að körfunni þar sem Sigurbjörg Sigurðardóttir og Nína Jenný Kristjánsdóttir (188 sm) voru sterkar fyrir en auk þeirra var Króksarinn Birna Eiríks (Hansen) ólseig fyrir lið ÍR. Tess komst því ekki nógu vel í takt við leikinn en lið Tindastóls var engu að síður með yfirhöndina og leiddi í hléi, 40-28.

Það var augljóst að Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari ÍR, hafði messað duglega yfir sínum stúlkum í leikhlénu því þær komu mun ákveðnari til leiks í síðari hálfleik. Vörnin þéttist og Stólastúlkur þurftu að enda margar sóknir með 3ja stiga skotum sem rötuðu ekki eins vel í körfuna í síðari hálfleik en í þeim fyrri. Á sama tíma varð flæðið í sókn ÍR betra og þær enduðu alltof oft með því að fá opna leið að körfu Tindastóls eða opið skotfæri. Lið ÍR minnkaði muninn fljótlega í fjögur stig í þriðja leikhluta en þriðji þristurinn frá Valdísi sló gestina aðeins út af laginu en fimm stigum munaði fyrir lokafjórðunginn, staðan 53-48.

Í fjórða leikhluta tók ÍR leikinn yfir. Þær gerðu níu fyrstu stigin og komust yfir 53-57 og var það ekki síst fyrir góðan leik Hrafnhildar Magnúsdóttur og Nínu Jennýar sem hirti urmul frákasta og setti niður stór skot. Stólastúlkur eru ekki þekktar fyrir að gefast upp og var baráttan í góðu lagi en skotin rötuðu því miður ekki niður. Marín Lind minnkaði muninn í þrjú stig, 63-66, þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir en nær komust stelpurnar ekki og lið ÍR jók muninn. Niðurstaðan því svekkjandi níu stiga tap, 65-74.

Tölfræði á vef KKÍ >

Eins og í fyrri leikjum þá er hæð mótherjanna að valda Stólastúlkum vandræðum. Að þessu sinni tók lið ÍR 20 fráköstum meira en lið Tindastóls, 58 gegn 38, og þar af tóku þær 24 sóknarfráköst gegn sex heimastúlkna. Fyrir vikið tóku þær 20 fleiri skot en lið Tindastóls og það er ansi dýrkeypt. Stólastúlkur voru án baráttujaxlsins Ernu Rutar og þá munar að sjálfsögðu talsvert um að Þóranna Ósk er enn að stríða við afleiðingar heilahristings sem hún fékk fyrir áramót og hefur ekkert verið með síðan. Marín Lind var stigahæst í liði Tindastóls með 23 stig en Tess var „aðeins“ með 18 stig á laugardaginn en hirti níu fráköst og átti fimm stoðsendingar. Eva Rún og Valdís Ósk voru báðar með níu stig í leiknum. Í liði ÍR var Nína Jenný stigahæst með 16 stig og Hrafnhildur gerði 14 en Sigurbjörg gerði tíu stig og tók 13 fráköst.

Næsti leikur Tindastóls fer fram í Njarðvík 1. mars og síðasti leikur stúlknanna er síðan 9. mars og fer fram á Akureyri.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir