Liðin skiptu með sér stigunum í kuldabolanum á Króknum

Stólastúlkur þakka áhrofendum fyrir leikinn að honum loknum – eða þeim sem voru ekki hlaupnir heim í hlýjuna um leið og flautað var af. MYND: ÓAB
Stólastúlkur þakka áhrofendum fyrir leikinn að honum loknum – eða þeim sem voru ekki hlaupnir heim í hlýjuna um leið og flautað var af. MYND: ÓAB

Tindastóll og Keflavík mættust í kvöld í fyrstu umferð Bestu deildarinnar. Það var ískalt á Króknum og nokkur norðanvindur og hjálpaði það ekki liðunum við að spila góðan bolta. Bæði lið fengu færi til að skora í leiknum en í heildina var fátt um fína drætti, oftar en ekki klikkaði úrslitasendingin eða vantaði upp á hlaup í svæðin en bæði lið mega vera ánægð með varnarleik sinn. Það voru því ekki mörkin sem yljuðu áhorfendum í þetta skiptið. Lokatölur 0-0.

Lið Keflavíkur var ívið sterkara framan af og gekk betur að halda boltanum og var sterkara inni á miðjunni. Fyrsta snerting hjá Stólastúlkum var slæm framan af og virkaði stundum eins og stelpurnar væru óþarflega stressaðar. Í þau skipti sem lið Tindastóls náði að skapa sér vænlega sóknarstöðu misstu þær ýmist boltann frá sér eða sendingar voru slæmar. Þetta átti nú allt eftir að lagast en einkenndi fyrstu 25 mínútur leiksins. Hugrún fékk besta færi Tindastóls en skaut yfir eftir um stundarfjórðungsleik en lið Keflavíkur átti nokkrar ágætar skottilraunir af nokkru færi en fengu dauðafæri rétt fyrir hlé þegar leikmaður þeirra fékk boltann dauðafrí rétt utan markteigs en negldi yfir.

Fátt fallegt gerðist fyrri hluta síðari hálfleiks en síðustu 20 mínúturnar náðu heimastúlkur einhverjum völdum á miðjunni og þar var Hannah Cade í essinu sínu, leit helst út fyrir að hún væri nýkomin inn á meðan allir í kringum hana voru farnir að þreytast. Þetta varð til þess að fleiri sóknarleiðir opnuðust og Murr komst því betur í takt við leikinn. Hún náði frábærum snúningi þegar um stundarfjórðungur var eftir og náði góðu skoti sem smaug rétt framhjá stönginni. Það fór því svo að liðin náðu ekki að finna þá gæðabolta sem þurfti til að skapa mörk og skiptu því stigunum á milli sín.

Það var mikilvægt upplegg og mjög vel gert hjá gestunum að þeir gáfu liði Tindastóls ekki færi á að beita sínum skörpustu vopnum; hornspyrnum og aukaspyrnum. Stólastúlkur fengu sennilega ekki eina hornspyrnu í leiknum og aukaspyrnur inni á vallarhelmingi gestanna voru sárafáar. Varnarleikur beggja liða var sem fyrr segir til fyrirmyndar en meira mæddi á vörn Tindastóls en þær voru gríðarsterkar og Keflvíkingar höfðu oftast ekki erindi sem erfiði í stöðunni einn á móti einum. Niðurstaðan því að bæði lið eru komin á blað en þurfa að skerpa á sóknarleiknum í framhaldinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir