Mikið kredit á Atla og Orra

Orri Arason fagnar eftir að hafa skorað sigurmarkið. MYND: JÓN ÍVAR PHOTOGRAPHY
Orri Arason fagnar eftir að hafa skorað sigurmarkið. MYND: JÓN ÍVAR PHOTOGRAPHY

Feykir sagði frá því fyrr í dag að lið Kormáks/Hvatar hefði borið sigurorð af liði Árbæjar í 3. deildinni. Leikurinn var afar mikilvægur í baráttunni um sæti í 2. deild að ári og nú hafa Húnvetningar fimm stiga forystu á liðið í þriðja sæti deildarinnar, Árbæ, þegar tvær umferðir eru eftir.

Staðan er því afar vænleg. Ingvi Rafn Ingvarsson, þjálfari Kormáks/Hvatar svaraði spurningum Feykis í leikslok.

Ertu stoltur af liðinu eftir enn einn endurkomusigurinn? „Ég gæti ekki verið meira stoltur af strákunum. Enn og aftur gefumst við ekki upp. Í þetta skiptið lendum við tvisvar undir en náum samt að snúa leiknum sem er bara geggjað. Menn misstu aldrei trúna og það skóp þennan sigur. Mér fannst þeir sterkari í fyrri hálfleik, við spiluðum undan vindi en áttum erfitt með að halda í boltann. Seinni hálfleikur var mun betri hjá okkur þar sem mér fannst við ná góðri stjórn á leiknum og frábært að fá sigurmark frá Orra Ara í lokin. Mikið kredit á ungu strákana okkar, Atla og Orra, sem komu virkilega flottir inn í seinni hálfleik. Þá fannst mér varnarlínan okkar mjög öflug og stigu ekki feilspor í leiknum, þar sem mörk Árbæjar koma eftir fyrirgjöf og svo beint úr horni. Þá verð ég minnast á fyrirliðann, Sigurð Adnegaard, sen stóð vaktina í markinu og gerði það vel.“

Hvernig var stemningin í klefanum að leik loknum? „Stemningin í klefanum var að sjálfsögðu mögnuð. Allir léttir eftir frábæran sigur,“ segir Ingvi Rafn sem tók við þjálfun Kormáks/Hvatar að loknum þremur umferðum í sumar eftir að Aco Pandurevic hætti. Aco var hins vegar á skýrslu í dag og kom inn á í hálfleik en hann hafði ekkert spilað með liðinu í sumar, býr aftur á móti á Blönduós og þjálfar yngri flokkana þar.

Það var því ekki úr vegi að spyrja Ingva Rafn hver skýringin á innkomu hans í liðið væri. „Sagan á bak við Aco er þannig að ég hitti hann í hádegismat á mánudaginn á hinum frábæra veitingastað, Teni, á Blönduósi. Hann sagði mér að ef ég vildi þá gæti hann hjálpað okkur í þessum leik. Ég taldi það vera upplagt þar sem allir serbnesku leikmenn liðisins [Uros, Lazar og Goran] voru í banni í þessum leik og tilvalið að fá einn serba inn í hópinn. Hann átti magnaða innkomu þar sem hann átti hlut í bæði öðru og þriðja markinu. Fyrst og fremst er hann frábær manneskja og er alltaf til í að hjálpa. Hann hefur engu gleymt sem leikmaður og sýndi það í þessum leik.“

Getur fyrirliðinn eitthvað í marki? „Fyrirliðinn er frábær í marki eða allavega finnst honum það,“ segir Ingvi Rafn hlæjandi í lokin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir