Minningarmót um Friðrik lækni

Friðrik J.Friðriksson. Mynd af Netinu.
Friðrik J.Friðriksson. Mynd af Netinu.

Árlegt minningarmót til heiðurs Friðriki J. Friðrikssyni lækni fer fram á Hlíðarendavelli sunnudaginn 16. júní.  Friðrik læknir var fyrsti heiðurfélagi Golfklúbbs Sauðárkróks, GSS.  Hann var formaður klúbbsins árin 1977-83 en á þeim árum var völlurinn fluttur að Hlíðarenda að tilstuðlan nokkurra eldhuga úr Rótarý og golfklúbbnum.   Friðriki hafði brennandi áhuga á golfi og byrjaði að spila snemma á vorin niður á Borgarsandi þegar ekki var fært uppi á velli.  Hann æfði sig óspart heima, svo mikið að stofuloftið varð fyrir barðinu á golfkylfunum svo gera þurfti við það. Þeir sem spiluðu golf með Friðriki lýsa honum sem liprum félaga sem gott var að spila með. 

Friðrik fór ótroðnar slóðir og var á undan sinni samtíð hvað golfkylfur varðar.  Hann var ekki alltaf sáttur við sveifluna en í stað þess að breyta sveiflunni þá breytti hann kylfunum.  Hann sneri upp á þær til að fá þær kylfur sem hentuðu honum.  „Það er enginn eins byggður, sjáðu bara hendurnar á mér, þær eru allt öðru vísi en þínar“ sagði Friðrik við golffélaga sinn.  Friðrik fór einnig á vélaverkstæðið og lét snitta í þyngingar til að breyta kylfunni.  Hann fór svo heim og prófaði og kom aftur til að láta breyta þar til hann var sáttur.  Svona breytingar eru innbyggðar í kylfur í dag, með málmstykkjum sem færa má til.  Sagan segir að Friðrik hafi eitt sinn mætt á verkstæði með kylfu sem var með tréhaus en úr málmi að hluta.  Verkstæðismaðurinn treysti sér ekki til að snitta í kylfuna og eiga það á hættu lenda í málmi og eyðileggja kylfuna.  Friðrik fór heim en mætti sigri hrósandi daginn eftir með röntgenmynd af kylfuhausnum og fékk þá breytingar sem hann óskaði.

Friðrik ráðlagði mörgum að stunda golf sér til heilsubótar enda er golf gott fyrir heilsuna.  GSS á Friðriki mikið að þakka.  Hann var öflugur formaður.  Hann var óspar á gjafir til golfklúbbsins og tíma í vinnu. Við í GSS minnumst hans með mótinu á sunnudaginn.  Nokkrar kylfur Friðriks verða til sýnis í golfskálanum um helgina og eru allir velkomnir til að skoða og njóta útsýnis frá Hlíðarenda.  Þar er veitingasala og ljúft að setjast niður.  Skráning í mótið er á golf.is

Kristján Bjarni Halldórsson
formaður GSS

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir