Óvenju þægilegur sigur í Síkinu á liði Grindvíkinga

Keyshawn var stigahæstur Stóla í gær með 20 stig. MYND: SIGURÐUR INGI PÁLSSON
Keyshawn var stigahæstur Stóla í gær með 20 stig. MYND: SIGURÐUR INGI PÁLSSON

Tindastóll mætti seigu liði Grindavíkur í Subway-deildinni í gær og unnu sannfærandi sigur þrátt fyrir smá skjálftahrinu í þriðja leikhluta. Það varð þó ekkert panik hjá Stólunum að þessu sinni og þeir náðu vopnum sínum á ný í fjórða leikhluta og náðu þá mest 19 stiga forystu gegn óvenju lystarlitlum gestum. Lokatölur 95-82 og með sigrinum treystu Stólarnir stöðu sína í fimmta sæti deildarinnar þar sem þeir sitja nú einir með 18 stig en nú þegar fimm umferðir eru eftir er nokkuð langsótt að liðið tryggi sér heimaleikjarétt í úrslitakeppninni.

Það var boðið upp á 3ja stiga forrétt í upphafi leiks í gær og þegar rétt rúmlega fjórar mínútur voru liðnar var Arnar búinn að setja þrjá þrista og Tindastólsliðið með forystu, staðan 14-10. Heimamenn héldu fimm til átta stiga forystu út leikhlutann en að honum loknum var staðan 23-17. Keyshawn, Taiwo og Siggi gerðu fyrstu körfurnar í öðrum leikhluta og Grindvíkingar strax farnir að elta leikinn. Munurinn á liðunum var síðan yfirleitt tíu til tólf stig þangað til Pétur, Davis og Drungilas gerðu sex stig í röð og Stólarnir komnir með vænlega stöðu, 43-27, rétt fyrir hálfleik. Damier Pits náði að gefa Grindvíkingum von um betri síðari hálfleik með því að gera síðustu fimm stig hálfleiksins við litla hrifningu Pavels. Staðan 43-32 í hálfleik.

Stólarnir virkuðu ekki jafn vel stemmdir í upphafi þriðja leikhluta en þeir héldu þó gestunum í skefjum þangað til um miðjan leikhlutann. Munurinn yfirleitt níu til tíu stig og það þurfti auðvitað ekki annað en tvo þrista frá Grindvíkingum til að hleypa leiknum upp. Og eins og nótt fylgir degi þá komu tveir þristar í röð frá Pitts og staðan 55-52. Það varð þó ekkert óðagot á Stólunum að þessu sinni og þeir mölluðu áfram með fjögurra til sex stiga forskot eftir að Davis setti niður þrist. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 66-59.

Zoran minnkaði muninn í fjögur stig snemma í fjórða leikhluta og allt leit út fyrir spennandi lokakafla. Í stöðunni 68-64 náðu Stólarnir 9-0 kafla og eftir tvist frá Pitts setti Pétur þrist og staðan 80-66 og í kjölfarið fóru gestirnir úr Grindavík á límingunum.

Breiddin góð í liði Tindastóls

Lið Tindastóls spilaði vel í gær en sex leikmenn gerðu meira en tíu stig í leiknum og erfitt að eiga við Stólana þegar svo margir eru heitir. Pétur og Keyshawn skiluðu báðir 23 punkta framlagi. Pétur var með 14 stig, sjö fráköst og sex stoðsendingar en Keyshawn gerði 20 stig, tók þrjú fráköst og átti sex stoðsendingar. Taiwo skilaði 16 stigum, Davis Geks 13, Arnar 12 og Drungalis 11. Í liði gestanna var Pitts með 22 stig og Breki 15 en Óli Óla náði sér ekki á strik, gerði fimm stig og munar um minna.

Staðan í deildinni er þannig að lið Vals, Njarðvíkur, Keflavíkur og nýliðanna í Haukum eru í nokkrum sérflokki. Valur og Njarðvík bæði komin með 26 stig eftir 17 leiki og Keflavík og Haukar eru með 24 stig en Keflvíkingar eiga leik til góða í kvöld gegn Þór Þorlákshöfn. KR-ingar þurfa kraftaverk til að halda sæti sínu í deildinni en Vesturbæingar eru hreinlega ekki með gott lið og sitja á botninum með fjögur stig. Þar fyrir ofan er ÍR með tíu stig og síðan Höttur og Þór með tólf stig. Það má í raun segja að öll liðin í neðri hluta deildarinnar séu í fallhættu.

Nú er komið að landsleikjahléi í Subway-deildinni og næsti leikur Tindastóls ekki fyrr en 5. mars en þá heimsækja Stólarnir Blika í Kópavoginn. Þar á eftir fylgir leikur gegn liði Hauka hér heima. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir