Skellur í Hertz-hellinum

Lið ÍR hefur reynst Stólastúlkum erfitt viðureignar í síðustu leikjum. Hér er Tess í veseni í Síkinu fyrr í vetur. MYND: HJALTI ÁRNA
Lið ÍR hefur reynst Stólastúlkum erfitt viðureignar í síðustu leikjum. Hér er Tess í veseni í Síkinu fyrr í vetur. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastólsstúlkur fóru suður yfir Holtavörðuheiði í gær og léku við lið ÍR í Breiðholtinu. Eftir ágæta byrjun Tindastóls í leiknum þá tóku Breiðhyltingar yfir leikinn allt til loka og niðurstaðan hörmulegur skellur. Lið ÍR var yfir 45-26 í hálfleik en vont versnaði í síðari hálfleik og lokatölurnar 106-49.

Tindastólsliðið hefur átt við meiðsli að stríða nú á nýju ári og það hefur aldeilis ekki verið að hjálpa til. Nú vantaði Kristínu Höllu og Valdísi Ósk og einhverjar stúlkurnar eru að spila meiddar.  Engu að síður byrjaði liðið leikinn vel og var yfir 2-8 eftir fjórar mínútur og 6-13 þegar sjö mínútur voru liðnar. Þá vaknaði Hellisbúinn og var ekki ánægður með yfirgang gestanna. Þegar fyrsta leikhluta var lokið var lið ÍR komið yfir, 17-15, og eftir fimm mínútna leik í öðrum leikhluta var staðan 31-17 og nokkuð ljóst í hvað stefndi. Nítján stigum munaði í hálfleik og þó Tess skoraði fyrstu körfu síðari hálfleiks þá hélt lið ÍR áfram að breikka bilið og að lokum var það orðið svo mikið að best er að vera ekkert að segja frá því.

Eðlilega tapaðist frákastabaráttan í Hellinum þar sem sentimetrarnir voru ekki að þvælast fyrir Stólastúlkum. Þá var skotnýtingin ekki upp á marga fiska og til dæmis var Marín Lind sú eina í liðinu sem hitti úr 3ja stiga skotum. Lið Tindastóls tapaði ellefu fleiri boltum en ÍR. 

Tess var framlagshæst í liði Tindastóls með aðeins sex punkta eftir að hafa gert 13 stig og hirt flest fráköst Stólastúlkna eða sex talsins. Marín Lind var stigahæst með 16 stig en hún setti niður þrjá þrista í sex skotum. Þá gerði Hera Sigrún tíu stig, Karen Lind og Eva Rún fjögur stig hvor og Telma Ösp tvö stig. Í lið ÍR var Króksarinn Birna Eiríks stigahæst með 21 stig, Sigurbjörg Sigurðar gerði 16 stig og Arndís Þórisdóttir 15 stig.

Lið Tindastóls er nú að síga aftur úr toppliðunum fjórum sem berjast um sæti í úrslitakeppninni. Það þarf ansi margt að snúast við hjá liðinu til að það geti barist um eitt af fjórum efstu sætunum nú þegar sex umferðum er ólokið. En miði er möguleiki og stefnan hlýtur að vera á að hala inn eins mörg stig og mögulegt er. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir