Skíðavertíðinni lokið í Tindastól – Engin skíðahátíð um páskana

Sigurður Bjarni Rafnsson, formaður skíðadeildar Tindastóls og Viggó Jónsson, framkvæmdastjóri, voru ekki alveg sáttir með vorhlýjuna í morgun enda skíðabrekkurnar ófærar eins og sjá má að baki þeim.
Mynd: PF
Sigurður Bjarni Rafnsson, formaður skíðadeildar Tindastóls og Viggó Jónsson, framkvæmdastjóri, voru ekki alveg sáttir með vorhlýjuna í morgun enda skíðabrekkurnar ófærar eins og sjá má að baki þeim. Mynd: PF

Nú er útséð með það að ekkert verður úr páskagleðinni sem vera átti á skíðasvæði Tindastóls og formlegri vígslu nýju lyftunnar frestað enn einu sinni. Viggó Jónsson, staðarhaldari, segir allan snjó horfinn og ekkert hægt við því að gera.  „Gríðarleg vonbrigði og mikið fjárhagslegt tjón,“ segir hann.

„Við áttum von á miklum fjölda um páskana en verðum bara að gráta í koddann. Verðum að játa okkur sigraða þó það sé erfitt,“ segir Viggó og Sigurður Bjarni Rafnsson, formaður skíðadeildar Tindastóls tekur undir: „Þetta er alveg í takt við veturinn, þetta byrjaði í raun aldrei.“ Þeir segja að vonin hafi glæðst í upphafi vetrar þegar mikill snjór kom í fjallið en þegar átti að fara að opna í byrjun desember hafi þessi frábæra hláka komið tekið nánast allt upp.

Þá fór mikill tími í uppsetningu nýju lyftunnar og kannski ekki safnað saman nægum snjó né hann framleiddur. „Ég hélt að þetta væri alltaf að koma en maður brennir sig ekki á sama soðinu tvisvar. Það er ekkert annað að gera en að safna þessu í reynslubankann,“ segir Viggó sem segist geta verið vitur eftir á. „Það hefði verið hægt að framleiða djöfulinn ráðalausan í haust og þá ef, hefði og kannski, værum við í betri málum.

Sigurður tekur ekki undir með Viggó og telur það hefði ekki haft neitt að segja miðað við hvernig veturinn hefur leikið skíðadeildina. „Veturinn var þannig,“ segir Sigurður Bjarni.

Það leynir sér ekki að þeir félagar eru gríðarlega vonsviknir með stöðu mála ekki síst þar sem nýja lyftan hefur fengið fádæma góða umsögn og vitað er um marga sem ætluðu að heimsækja Skagafjörðinn um páskana og fara á skíði. „Margir verða svekktir þegar þetta verður tilkynnt,“ segir Sigurður svo það er best að bíða ekki með það.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir