Skrifað undir samstarfsamning ULM 2023 á ársþingi UMSS

Gunnar Þór Gestsson formaður UMSS, Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ og Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar, skrifa undir samstarfssamning. Mynd: GAX.
Gunnar Þór Gestsson formaður UMSS, Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ og Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar, skrifa undir samstarfssamning. Mynd: GAX.

Á 103. ársþingi UMSS, sem haldið var fyrir skömmu, var m.a. skrifað undir samstarfsamning ULM 2023 sem fram fer á Sauðárkróki daganna 3.-6. ágúst nk. Þá voru veitt Silfurmerki ÍSÍ og Gullmerki UMFÍ. 

Á heimasíðu UMSS kemur fram að 38 kjörfulltrúar hafi mætt af 62 auk gesta; Garðar Svansson frá ÍSÍ, Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ, Auður Inga Þorsteinsdóttir framkvæmdastjóri UMFÍ, Málfríður Sigurhansdóttir UMFÍ og Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar.

Garðar Svansson var kosinn þingforseti og Málfríður Sigurhansdóttir varaþingforseti og voru þeir Þorvaldur Gröndal og Óli Björn Pétursson kjörnir ritarar þingsins. Í stuttu þinghléi skrifuðu þeir aðilar sem standa að Unglingandsmóti UMFÍ sem fram fer á Sauðárkróki 3.-6. ágúst næst komandi undir samstarfssamning.

Hjörtur og Magnús með Garðari frá ÍSÍ sem
sæmdi þá Silfurmerki ÍSÍ. Mynd: UMSS.

Garðar Svansson frá ÍSÍ kom upp pontu og veitti þeim Hirti Geirmundssyni og Magnúsi Helgasyni Silfurmerki ÍSÍ fyrir þeirra sjálfboðavinnu í þágu íþróttamála en þeir Hjörtur og Magnús hafa eytt mörgum árum í stjórn sinna félaga.

Jóhann Steinar Ingimundarson formaður UMFÍ tók þá til máls og veitti Gullmerki UMFÍ til Hrafnhildar Pétursdóttir fyrir hennar óeigingjarna starf sem sjálfboðaliði sem hún sinnir enn af krafti. Í frétt UMSS segir að nokkrir aðrir einstaklingar hafi átt hjá sambandinu merki þar sem þau komust ekki á þingið en fá síðar afhent.

Hrafnhildur Pétursdóttir fékk Gullmerki
UMFÍ afhent af Jóhanni Steinari
Ingimundarsyni formanni UMFÍ.
Mynd: UMSS.

Þá kynnti Ómar Bragi Stefánsson 50+ mótið, drulluhlaupið og forsetahlaupið sem eru íþróttaviðburðir UMFÍ auk Unglingalandsmótsins sem fram fer á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina, að auki sagði hann þingfulltrúum frá ákvörðun stjórnar UMSS sem samþykkti á síðasta stjórnarfundi fyrir árþing að allir keppendur á aldrinum 11-18 ára úr Skagafirði geti skráð sig frítt á mótið.

Gunnar Þór Gestsson var kjörin til áframhaldandi formennsku, auk Þorvaldar Gröndal og Jóel Þórs Árnasonar. Áfram sitja þær Kolbrún Passaro og Þuríður Elín Þórarinsdóttir. Í varastjórn til eins árs voru þau Elvar Einarsson, Hrefna Reynisdóttir og Indriði Ragnar Grétarsson kjörin.

Nánari upplýsingar má finna HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir