Stjarnan sterkari í hörkuleik

Sinisa Bilic fer fram hjá Kyle Johnson í leiknum gegn Stjörnunni hér heima í haust. Sá leikur endaði 91-83 fyrir Tindastól. Kyle var ekki með liði Stjörnunnar í gær. MYND: HJALTI ÁRNA
Sinisa Bilic fer fram hjá Kyle Johnson í leiknum gegn Stjörnunni hér heima í haust. Sá leikur endaði 91-83 fyrir Tindastól. Kyle var ekki með liði Stjörnunnar í gær. MYND: HJALTI ÁRNA

Varnarleikur var í hávegum hafður í Garðabænum í gærkvöldi þar sem topplið Stjörnunnar tók á móti Tindastólsmönnum. Stjörnumenn náðu yfirhöndinni strax í byrjun og slæmur kafli Tindastóls undir lok fyrri hálfleiks var dýrkeyptur þrátt fyrir ágæt áhlaup strákanna í síðari hálfleik. Þeir náðu að hleypa spennu í leikinn undir lokin en gamall Stóll, Urald King, var Garðbæingum dýrmætur síðustu mínútur leiksins og innsiglaði sigur heimamanna með tveimur kunnuglegum hraðaupphlaupstroðslum. Lokatölur voru 73-66.

Veikindi og vesen höfðu hrjáð leikmenn liðanna fyrir leik og í lið Tindastóls vantaði Jaka Brodnik og þá var Deremy Geiger enn ekki kominn með leikheimild – hljóta nú að vera orðin einhver flóknustu pappírsviðskipti sem um getur í íslenska boltanum. Talsvert hefur verið rætt um framtíð Gerel Simmons í kjölfar þess að Geiger kom til liðs við Stólana og þó Feykir hafi engar staðfestar upplýsingar  um framtíð hans þá tjáði Svali lýsir Björgvins áhorfendum á Stöð2Sport að fyrir lægi að Simmons kláraði tímabilið með Stólunum.

Nikolas Tomsick var óstöðvandi fyrstu mínútur leiksins og gerði átta fyrstu stig Stjörnunnar en heimamenn voru snemma komnir með undirtökin í leiknum. Illa gekk að hægja á Ægi Þór og það leit út fyrir að Stólarnir yrðu undir hraðlestinni. Bilic gerði þó vel í að svara, hann gerði tíu af 15 stigum sínum í leiknum í fyrsta leikhluta, og smá saman náðu Stólarnir að hægja tempóið í leiknum og hemja heimamenn. Staðan var 23-16 þegar annar leikhluti hófst og nú gekk Stólunum betur að stjórna leiknum. Perkovic, sem átti ágætan leik í fjarveru Brodnik, setti niður þrist og minnkaði muninn í 29-25 og Simmons bætti síðan við íleggju og þegar annar leikhluti var hálfnaður setti hann þrist úr horninu og kom Stólunum yfir í fyrsta og eina skiptið í leiknum – staðan 29-30. Þá kom slæmur kafli því Tindastólsmenn gerðu ekki eitt stig það sem eftir var fram að hléi á meðan Ægir Þór og Urald King snéru leiknum við fyrir heimamenn. Það var síðan að sjálfsögðu Tomsick sem tók lokaskotið fyrir hlé, langan þrist sem fann ekkert nema net. Staðan 43-30 eftir 14-0 kafla Stjörnunnar.

Pétur og Bilic gerðu fyrstu sex stig síðari hálfleiks og Stólarnir fengu tækifæri til að minnka muninn enn frekar áður en heimamenn hristu af sér hálfleiksspjall Arnars þjálfara. Þrjú skot geiguðu hjá Stólunum áður en Stjörnumenn fundu loks leiðina að körfu Tindastóls og var leikurinn í jafnvægi næstu mínútur, munurinn yfirleitt um 8-10 stig. Simmons minnkaði muninn í sjö stig, 55-48, en Hlynur setti þá niður þrist hinum megin og hann átti síðan síðasta orðið í þriðja leikhluta og staðan 62-50. Það var lítið skorað á upphafsmínútum fjórða leikhluta og varnir liðanna til fyrirmyndar – það var ekkert ókeypis í gær. Stjarnan gerði aðeins eitt stig fyrstu sex mínútur leikhlutans en á meðan læddust Stólarnir nær og nær. Pétur setti niður tvö víti og minnkaði muninn í fjögur stig, 63-59. Urald King gerði næstu sex stig Stjörnunnar, þar af tvær troðslur, á meðan Simmons gerði eina körfu fyrir Stólana. Axel minnkaði muninn í 69-63 og þristur frá Pétri þegar rúm mínúta var eftir af leiknum minnkaði muninn í þrjú stig. Þrátt fyrir mikla baráttu og eltiingaleik nánast allan leikinn, þá tókst Stólunum ekki að ræna stigunum því Ægir Þór og Hlynur gerðu síðustu körfur leiksins fyrir Stjörnuna. Lokatölur 73-66.

Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu og fyrirmyndar varnarleik beggja liða og voru þjálfarar beggja liða hæst ánægðir með þann þátt leiksins. Aðeins sex leikmenn í hvoru liði náðu að skora í leiknum. Lið Stjörnunnar hefur á að skipa tveimur af bestu frákösturum landsins í Hlyni Bærings og Urald King og það var erfitt að eiga við þá, enda unnu heimamenn þá baráttu 58/44. Skotnýting liðanna var svipuð en heimamenn fengu töluvert fleiri víti, 21/12, og nýttu þau vel. Stólarnir töpuðu aðeins átta boltum í leiknum en heimamenn 14. 

Simmons átti ágætan leik fyrir lið Tindastóls, gerði 18 stig, en Bilic gerði 15 stig og tók sjö fráköst en hann virtist ekki ganga alveg heill til skógar. Perkovic gerði nokkrar stórar körfur, til dæmis fimm fyrstu stig fjórða leikhluta, en hann gerði 14 stig í leiknum og hirti átta fráköst. Pétur var með 12 stig en hann var snemma leiks kominn í smá villuvandræði. Í liði Stjörnunnar voru Ægir Þór og Tomsick báðir með 19 stig, Urald 17 og Hlynur 11 en samtals tóku þeir tveir 25 fráköst.

Næsti leikur er hér heima á mánudaginn þegar lið Þórs frá Akureyri kemur í Síkið. Sæti í fjögurra liða úrslitum Geysis-bikarsins er undir í þeim leik. Akureyringarnir hafa verið að spila vel upp á síðkastið og hafa raunar unnið alla þrjá leiki sína það sem af er ári og komnir úr fallsæti, sem fáa hefði órað fyrir í byrjun leiktíðar. Þeir eru því sýnd veiði en ekki gefin. Fimmtudaginn þar á eftir koma svo Valsmenn í heimsókn í Síkið þannig að það er nóg um að vera í boltanum. Lið Tindastóls er í þriðja sæti Dominos-deildarinnar með 18 stig en þrjú lið, Njarðvík, Haukar og KR, eru með 16 stig. Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir