Stóla- og Keflavíkurstúlkur skiptu með sér stigunum

Aldís María fór eitthvað í taugarnar á þessum leikmanni Keflavíkur. MYND: ÓAB
Aldís María fór eitthvað í taugarnar á þessum leikmanni Keflavíkur. MYND: ÓAB

Lið Tindastóls og Keflavíkur mættust á Sauðárkróksvelli í dag í fyrstu umferð úrslitakeppni liðanna í neðri hluta Bestu deildarinnar. Suðvestan strekkingur setti talsvert strik í leikinn en var þó ekki það strembinn að ekki væri hægt að spila boltanum. Gestirnir komust yfir snemma leiks en Stólastúlkur jöfnuðu eftir klukkutíma leik og þar við sat. Lokatölur 1-1 og verða það að teljast nokkuð sanngjörn úrslit.

Lið Tindastóls hóf leik án Hönnuh Cade sem hefur nú varla misst mínútu úr síðan hún gekk til liðs við Tindastól. Hún var þó á bekknum líkt og Marta en þær stíða báðar við meiðsli. Í þeirra stað komu Elísa Bríet og Hugrún inn í byrjunarliðið. Murr kom boltanum í mark gestanna eftir tvær mínútur en markið var dæmt af vegna rangstæðu. Lið Keflavíkur lék með vindinn í bakið í fyrri hálfleik og það má segja að þær hafi nýtt sér hann þegar þær gerðu fyrsta mark leiksins eftir níu mínútur. Þá fengu þær aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingi Tindastóls, boltinn var sendur inn á teig og vindurinn virtist plata varnarlínu Stólastúlkna og Kristrún Ýr Holm náði að reka löpp í boltann og Monica náði ekki að verja. Eftir markið komst lið Tindastóls betur inn í leikinn og liðin skiptust á um að eiga góða kafla fram að hléi.

Melissa fékk ágætt skallafæri eftir hornspyrnu frá Elísu snemma í síðari hálfleik en á 60. mínútu náðu Stólastúlkur að jafna leikinn. Þá átti markvörður gestanna slæma hreinsun, boltinn fór til Beatriz sem skóflaði boltanum í markið frá vítateig – frábær afgreiðsla. Eftir jöfnunarmarkið sóttu gestirnir í sig veðrið og pressuðu talsvert að marki Tindastóls en vörnin stóð sig með prýði og gaf engin færi á sér. Bæði lið áttu eitt gott skot á mark andstæðinganna en markverðirnir vörðu vel. Það voru gestirnir sem þurftu meira á stigunum að halda og reyndu hvað þær gátu til að ná inn sigurmarki á lokakaflanum en höfðu ekki erindi sem erfiði.

Liðsheildin var frábær í dag

Feykir lagði nokkrar laufléttar spurningar fyrir Donna þjálfara Tindastóls að leik loknum og byrjaði á að spyrja hvort hann væri sáttur við jafnteflið. „Við hefðum klárlega viljað vinna og ætluðum okkur það. Stelpurnar lögðu allt i leikinn gegn hörku liði Keflavíkur og ég er sáttur við framlag leikmannana. Jafntefli eru liklegast sanngjörn úrslit já og það var gríðarlega mikilvægt að tapa ekki leiknum allavega.“

Hvaða leikmenn fannst þér standa upp úr í liði Tindastóls?„Liðsheildin var frábær í dag og ég er ánægður með framlag allra leikmanna.“

Hvað fannst þér vanta upp á í dag til að ná sigri? „Það vantaði upp á örlitið betri ákvarðanir á sóknarhelmingi og dekkningu í föstu leikatriði.“

Hannah og Marta voru ekki í byrjunarliðinu í dag, hvað kom til? „Hannah meiddist aðeins á æfingu i vikunni og Marta hafði lika verið tæp eftir síðasta leik og ekkert getað æft í vikunni. Þær verða vonandi klárar i næsta leik báðar. Annars er standið heilt yfir gott á þeim leikmönnum sem eftir eru í hópnum.“

Hvernig leggst leikur við Selfoss í þig í næstu umferð? „Næsti leikur leggst auðvitað vel í okkur og við erum mjög spennt fyrir honum. Við erum hvergi bangin og ætlum okkur að ná markmiðum okkar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir