Stólarnir höltruðu til ósigurs í Þorlákshöfn

Kinu Rochford reyndist Stólunum erfiður í kvöld. Þessi mynd er úr fyrri leik Tindastóls og Þórs í Síkinu í haust. MYND: HJALTI ÁRNA
Kinu Rochford reyndist Stólunum erfiður í kvöld. Þessi mynd er úr fyrri leik Tindastóls og Þórs í Síkinu í haust. MYND: HJALTI ÁRNA

Lið Tindastóls spilaði í kvöld sinn fyrsta leik á nýju ári þegar þeir skottuðust suður í Þorlákshöfn og léku við lið Þórs. Heimamenn hafa verið að ná jafnvægi í leik sinn og komnir með lúmskt sterkan hóp. Það mátti því búast við hörkuleik og sú varð raunin en þegar leið á leikinn urðu meiðsli Tindastólsmanna til þess að liðið náði ekki vopnum sínum á lokakaflanum og heimamenn lönduðu sætum sigri. Lokatölur 98-90 og klárlega ekki sú byrjun á árinu sem stuðningsmenn Stólanna óskuðu sér.

Lið Tindastóls hafði endurheimt Urald King úr barnseignarleyfi og hann var skarpur og skír framan af leik en varð að fara út af um miðjan þriðja leikhluta en svo virtist sem kappinn hefði snúið sig. Viðar kom ekki mikið við sögu, spilaði sjö mínútur og fór sömuleiðis meiddur af velli en það var síðan auðvitað skarð fyrir skildi að Pétur var ekkert með sökum meiðsla. Fyrir utan allt þetta þá voru Stólarnir lítið að græða á dómgæslunni í kvöld.

Heimamenn í Þór fóru betur af stað en mikið var skorað í fyrsta leikhluta og leiddu þeir 30-25 að honum loknum. Þristar frá Danero og Hannesi minnkuðu muninn í 32-31 og rétt fyrir miðjan annan leikhluta kom Brynjar Stólunum yfir, 36-38, með nettum þristi og Danero bætti um betur og kom Stólunum fimm stigum yfir. Næstu mínúturnar munaði yfirleitt um þremur til sex stigum á liðunum en Þórsarar löguðu stöðuna fyrir hlé en þá stóð 49-51.

Baráttan harðnaði í þriðja leikhluta en Stólarnir héldu áfram forystunni en mest náðu þeir sjö stiga forystu, 58-65, enn og aftur eftir þrist frá Brynjari. Alltaf náðu heimamenn að svara og Stólarnir náðu aldrei þessum spretti til að stinga heimamenn af. Urald King varð að fara af velli um miðjan þriðja leikhluta og Danero var kominn í villuvandræði. Kinu Rochford, Kani Þórsara, varð fyrir vikið illviðráðanlegur undir körfunni og Þórsarar hófu að saxa á forskot Stólanna. Þeir jöfnuðu 70-70 en Dino kom Stólunum yfir með ævintýralegum þristi úr horninu en það voru Þórsarar sem áttu betri lokamínútur í þriðja leikhluta og voru yfir, 77-75, fyrir lokaátökin.

Tindastólsmenn léku ágætlega fyrstu mínútur fjórða leikhluta og komust yfir 81-85 eftir að Danero setti niður þrist eftir stoðsendingu frá Axel Kára sem var vel stemmdur eftir ágætt haustfrí. Verra var að í næstu sókn Þórsara fékk Danero sína fimmtu villu eftir lítt gáfulegt brot á Jaka Brodnik utan 3ja stiga línunnar. Eftir þetta sprungu Stólarnir á limminu og Þórsarar sigldu fram úr og Stólarnir máttu sætta sig við annað tap sitt í vetur.

Urald King var atkvæðamestur Tindastólsmanna með 22 stig og sex fráköst á rúmum 19 mínútum. Danero og Brynjar skiluðu báðir 18 stigum og Dino var með 15 stig en hann spilaði allar 40 mínúturnar í kvöld og var orðinn ansi lúinn undir lokin. Í liði Þórs var Jaka Brodnik stigahæstur með 21 stig, Rochford var með 20 stig og hirti 15 fráköst og þá var Nikolas Tomsick með 16 stig og 11 stoðsendingar. Aðeins sjö leikmenn Þórs tóku þátt í leiknum en það munaði miklu um það í kvöld að Þórsarar fráköstuðu talsvert betur en Stólarnir eða 42/33. Næsti leikur Tindastóls er gegn liði Vals hér í Síkinu næstkomandi fimmtudag.

Tölfræði á vef KKÍ >

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir