Stólarnir komu úr Keflavík með sigur í farteskinu

Stuðningsmannalið Tindastóls í góðum gír. SKJÁSKOT AF SÍÐU TINDASTÓLS
Stuðningsmannalið Tindastóls í góðum gír. SKJÁSKOT AF SÍÐU TINDASTÓLS

„Þetta voru bestu tímar, þetta voru verstu tímar ...“ segir í frægri bók. Sennilega var nú Kalli Dickens ekki með þandar taugar körfuboltaáhugafólks í huga þegar hann reit þennan texta á blað en það er pínu svona sem ástandið á okkur stuðningsmönnum Stólanna er þegar úrslitakeppnin hefst í körfunni og leikurinn í Keflavík í gærkvöldi var ágætt dæmi um. Eina mínútuna voru Stólarnir bestir og þá næstu verstir – með tilheyrandi tilfinningarússíbana þeirra sem á horfðu. Strákarnir okkar náðu hins vegar í sigurinn eftir framlengdan leik og hafa því náð í mikilvægan útivallarsigur og undirtökin í einvígi liðanna í átta liða úrslitum Subway-deildarinnar. Lokatölur 107-114 og liðin mætast öðru sinni í Síkinu nú á laugardagskvöld.

Það stefnir í spennandi einvígi milli tveggja góðra liða. Keflvíkingar mættu skarpir og skírir til leiks þrátt fyrir að leikstjórnandann Hörð Axel vantaði í liðið sökum leikbanns. Þeir höfðu forystuna framan af leik, aðallega þar sem skot Stólanna fóru ekki ofan í körfuna sem er jú svolítið atriði í körfuboltaleik. Igor Maric kom heimamönnum í 12-3 eftir fjórar mínútur en næstu sjö stigin voru Stólanna og leikurinn í jafnvægi. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 22-17 og munurinn yfirleitt fjögur til átta stig fram yfir miðjan annan leikhluta. Þá náðu Stólarnir vopnum sínum og Raggi Ágústs kom sínum mönnum yfir í fyrsta sinn í leiknum, 39-41, þegar þrjár mínútur voru í hálfleik. Liðin skiptust síðan á að skora en geggjaður þristur frá Arnari, yfir risann David Okeke, sá til þess að Stólarnir gengu jákvæðir til búningsklefa. Staðan 44-50.

Tindastólsmenn léku vel í þriðja leikhluta og heimamönnum gekk illa að vinna niður forskot gestanna. Munurinn yfirleitt fjögur til tíu stig en aldrei tókst Stólunum að stinga af. Enn á ný kláraði Arnar leikhlutann með þristi eftir frábæra stoðsendingu frá Pétri og staðan 67-77 fyrir lokaátökin. Lengstum leit út fyrir að Stólarnir næðu að landa sigrinum nokkuð þægilega, margir leikmennn létu til sín taka í sókninni og heimamönnum gekk illa að stoppa Stólana. Eftir fautalegt brot Milka á Arnari við miðlínu var dæmd óíþróttamannsleg villa á Litháann, Arnar setti bæði vítin niður og Keyshawn skellti í þrist í sókninni sem á eftir fylgdi og munurinn ellefu stig, staðan 79-90. Fimm mínútur eftir og stuðningsmenn Tindastóls orðnir vongóðir um sigur. Heimamenn hengdu þó ekki haus heldur börðust áfram og minnkuðu muninn í fjögur stig á tveimur mínútum, 86-90. Þegar Arnar kom Stólunum í 90-97 og tæpar tvær mínútur voru eftir var útlitið orðið gott en sjö síðustu stig venjulegs voru heimamanna sem jöfnuðu metin, 97-97, og Stólunum tókst ekki að skora í lokasókn sinni.

Drungilas var seigur utan 3ja stiga línunnar í gærkvöldi og hann kom Stólunum yfir í byrjun framlengingar en Keflvíkingar svöruðu með fjórum stigum og komust þar með yfir í fyrsta sinn frá því í fyrri hálfleik. Pétur setti þá þrist, Taiwo bætti við fjórum stigum og Drungilas einu og lið Tindastóls sjö stigum yfir þegar tæpar tvær mínútur voru eftir af framlengingunni og þann mun náðu heimamenn ekki að brúa.

Liðin mætast að nýju á laugardag og þá í Síkinu

Mikilvægur sigur og Stólarnir koma Keflvíkingum í strigann en Suðurnesjapiltarnir eru enn ekki rotaðir. Það má reikna með að leikurinn á laugardaginn verði rosalegur enda lið Keflavíkur komið með bakið upp að vegg. Í gær skemmti Arnar sér hið besta og kláraði leikinn með 26 stig og sjö stoðsendingar. Drungilas átti toppleik, gerði 22 stig og tók tíu fráköst, Keyshawn skilaði 21 stigi og níu stoðsendingum og Taiwo gerði 19 stig og tók átta fráköst. Allir sem komu við sögu skiluðu fínu framlagi. Í liði heimamanna var Milka öflugur með 26 stig og 12 fráköst og réðst illa við hann að venju. Halldór Garðar átti frábærtan leik, gerði 20 stig og átti átta stoðsendinguar og stjórnaði leik Keflavíkur í fjarveru Harðar Axels.

Það var ekki bara á parketinu sem Stólarnir höfðu betur, á pöllunum var stór hópur stuðningsmanna Stólanna mættir góðum klukkutíma fyrir leik og höfðu betur í söng og dansi og mátti ítrekað heyra sungið; Velkomnir í Síkið! Næsti leikur verður í Síkinu og þar sem nú er löng og liðug páskahelgi má reikna með talsverðri ásókn í miða á leikinn. Í dag, skírdag, milli kl. 14-16 geta iðkendur yngri flokka Tindastóls, ásamt árskorthöfum, keypt miða í forsölu í sjoppunni í íþróttahúsinu. Á föstudag milli kl. 14-16 verður forsala fyrir aðra. Miðasala fer einnig fram að hluta í gegnum Stubb og mun opna á fimmtudag

Miðasala á laugardag opnar kl 17:00. Hamborgarar og kaldir drykkir í tjaldi sunnan við hús frá kl. 17. Húsið verður opnað kl. 18.00 og leikurinn hefst kl. 19:15.

Áfram Tindastóll!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir